Selfyssingar tryggðu sér í kvöld sæti í átta liða úrslitum Coca Cola bikar karla í handbolta eftir öruggan ellefu marka sigur á Gróttu, 27-16, í Hertz-höllinni á Seltjarnarnesi.
Áður höfðu Valur, Akureyri, Haukar og Afturelding tryggt sér sæti í átta liða úrslitunum en síðustu tveir leikir sextán liða úrslitanna fara fram Föstudaginn 20.desember (Völsungur - ÍR) og fimmtudaginn 16.janúar 2014 (Haukar 2 - ÍBV).
Yfirburðir Selfyssinga í kvöld koma mikið á óvart enda á útivelli á móti lið sem er með jafnmörg stig og þeir í 1. deildinni. Liðin gerðu 25-25 jafntefli í deildarleik fyrr í vetur.
Selfyssingar voru hinsvegar í miklu stuði í kvöld og þá sérstaklega í seinni hálfleiknum sem þeir unnu 12-6.
Grótta - Selfoss 16-27 (12-15)
Mörk Gróttu: Ólafur Ægir Ólafsson 7, Þráinn Orri Jónsson 3, Þórir Jökull Finnbogason 2, Vilhjálmur Geir Hauksson 2, Árni Benedikt Árnason 1, Aron Valur Jóhannsson 1.
Mörk Selfoss: Atli Kristinsson 6, Ómar Ingi Magnússon 6, Sverrir Pálsson 4, Hörður Másson 3, Einar Sverrisson 3, Jóhannes Snær Eiríksson 2, Elvar Örn Jónsson 2, Hrannar Gunnarsson 1.
