Króatíski framherjinn Mario Mandzukic verður ekki með Bayern München þegar liðið mætir CSKA Moskvu í Meistaradeildinni á morgun.
Mario Mandzukic spilaði í 56 mínútur í sigrinum á Borussia Dortmund á laugardaginn en hann er ekki orðinn góður af meiðslunum sem hann varð fyrir í sigrinum á móti Íslandi.
Mandzukic kom Króatíu í 1-0 í umræddum leik í umspilinu um laust sæti á HM en var síðan rekinn af velli fyrir gróft brot á Jóhanni Berg Guðmundssyni.
Ekki fylgir sögunni hvort Mandzukic hafi meitt sig þegar hann braut á íslenska landsliðsmanninum en hann er í það minnsta að glíma við kálfameiðsli sem hann varð fyrir í sigurleiknum á móti Íslandi.
Pep Guardiola, þjálfari Bayern München, ákvað að skilja Mario Mandzukic eftir heima þegar liðið flaug til Moskvu en í hans stað var valinn hinn 18 ára gamli Julian Green.
Bayern München er þegar búið að tryggja sér sæti í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar en eiga enn eftir að tryggja sér sigur í riðlinum.

