Njarðvíkingar eru komnir upp í þriðja sæti Dominos-deildar karla í körfubolta eftir fimm stiga sigur, 106-101, í frábærum tvíframlengdum leik í Icelandic Glacial höllin í Þorlákshöfn í kvöld.
Elvar Már Friðriksson skoraði 37 stig fyrir Njarðvík og Nigel Moore var með 10 af 31 stigi sínum í framlengingunum tveimur. Elvar Már var einnig með 6 fráköst, 7 stoðsendingar og 12 fiskaðar villur
Mike Cook Jr. var með 36 stig, 10 fráköst og 6 stoðsendingar fyrir Þór, Nemanja Sovic bætti við 19 stigum og 16 fráköstum og Ragnar Ágúst Nathanaelsson skoraði 15 stig og tók 16 fráköst.
Bæði lið voru búin að vinna 3 af fyrstu 4 leikjum sínum og áttu möguleika á því að komast upp í þriðja sæti deildarinnar með sigri.
Þórsarar unnu þrjá fyrstu leiki sína en hafa nú tapað tveimur síðustu leikjum sínum á móti Reykjanesbæjarliðunum Keflavík og Njarðvík.
Njarðvíkingar byrjuðu vel og voru níu stigum yfir eftir fyrsta leikhlutann, 24-15. Þórsarar svöruðu með því að vinna annan leikhlutann með sama mun, 24-15, og staðan var því 39-39 í hálfleik.
Þórsarar náðu mest átta stiga forskoti í þriðja leikhlutanum en voru fimm stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 64-59.
Þórsliðið var sjö stigum yfir, 74-67, þegar rúmar sex mínútur voru til leiksloka en Njarðvíkingar snéru við leiknum og leiddu með fjórum stigum, 82-78, þegar tæp mínúta var eftir.
Tómas Heiðar Tómasson tryggði Þórsliðinu framlengingu með því að setja niður þriggja stiga körfu á lokasekúndunum.
Liðin skiptust á að hafa forystuna í fyrstu framlengingunni. Elvar Már Friðriksson tryggði Njarðvík aðra framlengingu þegar hann jafnaði í 96-96 en Mike Cook Jr. klikkaði á lokaskotinu.
Nemanja Sovic kom Þór í 101-98 en Njarðvíkingar skoruðu átta síðustu stig leiksins og tryggðu sér sigurinn. Nigel Moore var með sex af þessum átta stigum.
Þór Þ.-Njarðvík 101-106 (15-24, 24-15, 25-20, 21-26, 11-11, 5-10)
Þór Þ.: Mike Cook Jr. 36/10 fráköst/6 stoðsendingar, Nemanja Sovic 19/16 fráköst, Tómas Heiðar Tómasson 15, Ragnar Ágúst Nathanaelsson 15/16 fráköst, Þorsteinn Már Ragnarsson 8, Baldur Þór Ragnarsson 8/4 fráköst/8 stoðsendingar.
Njarðvík: Elvar Már Friðriksson 37/6 fráköst/7 stoðsendingar/6 stolnir, Nigel Moore 31/11 fráköst, Logi Gunnarsson 15/5 fráköst, Hjörtur Hrafn Einarsson 8/6 fráköst, Ólafur Helgi Jónsson 4, Friðrik E. Stefánsson 4/13 fráköst/5 stolnir, Egill Jónasson 4, Ágúst Orrason 3.

