Magnús Þór Gunnarsson, fyrirliði Keflavíkur, missti af sínum fjórða leik í röð þegar Keflavík vann 97-88 sigur á Þór Þorlákshöfn í TM-Höllinni á fimmtudagskvöldið.
Heimasíða Keflavíkur ræddi við Magnús eftir leikinn en þessi mikla skytta hefur ekkert spilað síðan í byrjun október eftir að hafa handarbrotnað á æfingu.
„Ég fór i smá aðgerð síðasta mánudag og þá voru settir tveir pinnar inní höndina til þess að halda við bein svo það grói vel saman. Ég er að gæla við að ná bikarleiknum á móti Grindavík en ætli ég byrji nokkuð aftur fyrr en eftir áramót - ég verð líklega að taka skynsama ákvörðun núna og byrja ekki of snemma," sagði Magnús Þór um stöðuna á meiðslunum.
Magnús gefur ekki mikið fyrir það að fá að kynnast því að fylgjast með Keflavíkurliðinu af hliðarlínunni.
„Þetta er það ömurlegasta í heimi! Þetta er mjög erfitt og tekur virkilega á andlegu hliðina," sagði Magnús en hann er ánægður með stöðuna á liði Keflavíkur sem hefur nú unnið níu leiki í röð í öllum keppnum.
„Nýju leikmennirnir eru búnir að smellpassa inní liðið og eru þetta eðal náungar. Þjálfarinn er topp gaur. Hann er flottur þjálfari. Maður var nú í nokkrar vikur að venjast aðferðum hans en þetta er flott núna og rosa gaman," sagði Magnús en það er hægt að sjá allt viðtalið með því að smella hér.
Körfubolti