Zlatan Ibrahimovic skoraði fjögur mörk þegar Paris Saint-Germain hélt sigurgöngu sinni áfram með 5-0 útisigri á Anderlecht í Meistaradeildinni í kvöld en þrjú markanna komu í fyrri hálfleiknum. Bayern München vann einnig stórsigur og er með fullt hús í sínum riðli alveg eins og franska liðið.
Bayern München og Paris Saint-Germain virðast hreinlega vera algjör yfirburðarlið í sínum riðlum. Bæjarar eru með 9 stig og markatöluna 11-1 eftir þrjá leiki í D-riðli og PSG er með 9 stig og markatöluna 12-1 eftir þrjá leiki í C-riðli.
Zlatan Ibrahimovic varð þar með ellefti leikmaðurinn til að skora fernu í Meistaradeildinni en hann hefur nú skorað sex mörk í síðustu tveimur leikjum sínum í Meistaradeildinni.
Franck Ribéry skoraði fyrsta mark Bayern úr vítaspyrnu og bætti síðan öðru við í seinni hálfleik eftir að David Alaba hafði skorað í millitíðinni. Bastian Schweinsteiger skoraði síðan fjórða markið eftir rúmlega klukkutíma leik og Mario Götze innsiglaði 5-0 sigur undir lokin.
Bayer Leverkusen tók annað sætið í A-riðlinum af Shakhtar Donetsk eftir öruggan 4-0 sigur á Úkraínumönnunum í Þýskalandi í kvöld. Stefan Kiessling skoraði tvö mörk fyrir Leverkusen í leiknum.
Það gengur ekki vel hjá Íslendingaliðunum í Meistaradeildinni. Ajax er nánast úr leik eftir tap á móti Celtic í gær og í kvöld tapaði danska liðið FCK frá Kaupmannahöfn 3-1 á móti Galatasaray í Tyrklandi.
Manchester United er í efsta sæti í A-riðli Meistaradeildarinnar í fótbolta eftir nauman 1-0 sigur á spænska liðinu Real Sociedad á Old Trafford í kvöld en það var sjálfsmark á annarri mínútu leiksins sem skildi á milli liðanna. Wayne Rooney átti frábæran leik og fékk fullt af færum til að skora en hann átti mikinn þátt í eina marki leiksins.
Cristiano Ronaldo skoraði bæði mörk Real Madrid í 2-1 sigri á Juventus í B-riðli Meistaradeildarinnar í kvöld og er þar með kominn með sjö mörk í þremur fyrstu leikjunum í keppninni í ár.
Úrslit og markaskorarar í Meistaradeildinni:
A-riðill
Manchester United - Real Sociedad 1-0
1-0 Sjálfsmark (2.)
Bayer 04 Leverkusen - Shakhtar Donetsk 4-0
1-0 Stefan Kiessling (22.), 2-0 Simon Rolfes (50.), 3-0 Sidney Sam (57.), 4-0 Stefan Kiessling (72.)
B-riðill
Galatasaray - FC København 3-1
1-0 Felipe Melo (9.), 2-0 Wesley Sneijder (38.), 3-0 Didier Drogba (45.+1), 3-1 Claudemir (88.)
Real Madrid - Juventus 2-1
1-0 Cristiano Ronaldo (4.), 1-1 Fernando Llorente (22.), 2-1 Cristiano Ronaldo, víti (28.)
C-riðill
Anderlecht - Paris Saint-Germain 0-5
0-1 Zlatan Ibrahimovic (17.), 0-2 Zlatan Ibrahimovic (22.), 0-3 Zlatan Ibrahimovic (36.), 0-4 Édinson Cavani (52.), 0-5 Zlatan Ibrahimović (62.)
Benfica - Olympiakos 1-1
0-1 Alejandro Domínguez (29.), 1-1 Óscar Cardozo (84.)
D-riðill
CSKA Moskva - Manchester City 1-2
1-0 Zoran Tosic (32.), 1-1 Sergio Agüero (34.), 1-2 Sergio Agüero (42.)
Bayern München - Viktoria Plzen 5-0
1-0 Franck Ribéry, víti (25.), 2-0 David Alaba (37.), 3-0 Franck Ribéry (61.), 4-0 Bastian Schweinsteiger (64.), 5-0 Mario Götze (90.)
