Birgir Leifur Hafþórsson segir að hann þurfi að spila mjög vel á morgun til að ná forystunni á Íslandsmótinu í golfi.
Birgir Leifur minnkaði í dag forystu Haraldar Franklíns Magnús, ríkjandi Íslandsmeistari, í tvö högg og sótti um tíma mjög stíft að heimamanninum.
„Það voru fullt af góðum höggum í dag og flott golf, þannig að ég er sáttur,“ sagði Birgir Leifur en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.
„Ég var búinn að bíða eftir því að fá betra spil og betri færi hjá mér og ég fékk fullt af færum í dag. Ég hefði getað gert betur í nokkrum höggum en heilt yfir var ég mjög ánægður.“
Haraldur Franklín var með fimm högga forystu fyrir daginn en Birgir Leifur segir að það geti allt gerst á þessum velli.
„Haraldur er að spila mjög vel og þekkir völlinn vel þar að auki. Ég þarf að spila mjög vel til að ná honum á morgun en strákurinn er í hörkuformi.“
