Sport

125 útlendingar ætla að hlaupa Laugaveginn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Heimasíða hlaupsins
Metþátttaka er í hinu árlega Laugavegshlaupi sem fram fer á laugardaginn. 306 hlauparar eru skráðir til keppni en hlaupið er úr Landmannalaugum yfir í Húsadal í Þórsmörk.

217 karla og 89 konur ætla að hlaupa vegalengdina sem er um 55 kílómetrar. Þeirra á meðal eru 125 keppendur frá öðrum löndum en fjöldi erlendra þátttakenda hefur aldrei verið meiri.

Bandaríkjamenn eru fjölmennastir eða 37. Þá koma Þjóðverjarnir sem eru 15 og Bretar sem eru 11. Metið í karlaflokki er 4 klukkustundir og 19 mínútur en 5 klukkustundir í kvennaflokki.

Tímamörk eru í hlaupinu en hlauparar þurfa að vera komnir í Álftavatn (22 km leið) á innan við 4 klst og í Emstrur (34 km leið) á innan við sex klukkustundum. Mikill snjór er í Hrafntinnuskeri og nágrenni auk þess sem ár á leiðinni gætu verið vatnsmiklar eftir rigningu og leysingu síðustu daga.

Bót er í máli að votveðrið gerir það að verkum að áhygggjur af öskufoki eru litlar sem engar. Nánari upplýsingar fyrir áhugafólk og keppendur má finna á heimasíðu hlaupsins, sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×