Karlalið ÍR í handknattleik hefur fengið liðsstyrk. Örvhenta skyttan Arnar Birkir Hálfdánsson hefur samið við Breiðhyltinga til tveggja ára.
Arnar Birkir er tvítugur, uppalinn hjá Fram en lék síðasta vetur með FH. Á heimasíðu ÍR segir að koma hans á hægri vænginn sé enn einn liðurinn í þeirri uppbyggingu sem fram fer í Breiðholtinu þessi misserin.
Fyrir skömmu gekk markvörðurinn Arnór Stefánsson aftur til liðs við ÍR og verður liðið því skipað ungu og efnilegu markvarðateymi. Kristófer Fannar Guðmundsson, sem varði mark ÍR í vetur, og Arnór þekkja vel til hvors annars þar sem þeir spiluðu saman með yngri landsliðum.
Mikill hugur ríkir í herbúðum ÍR-inga og líta þeir björtum augum til komandi veturs.
