Pastor Maldonado slapp með skrekkinn þegar hann gat gengið frá hörðum árekstri við vegriðið í Mónakó dag. Í kjölfar slyssins var mótið stöðvað tímabundið á meðan hægt var að gera við öryggisveggi.
Maldonado er hins vegar ekki ánægður með framgöngu Max Chilton, hjá Marussia, í dag enda var það Chilton sem ók utan í Williams-bílinn með þeim afleiðingum að Maldonado var í stórhættu og varð að hætta keppni.
Williams-bíllinn flaug hreinlega í loft upp áður en hann skall í vegriðinu í utanverðri Tabac-beygjunni niðri við höfnina í Mónakó.
"Þetta var skerí," sagði Maldonado. "Ég bjóst ekki við því að Chilton myndi aka í veg fyrir mig. Það var mjög, mjög hættulegt í hraðri beygju í brautinni."
Hann bætti við að það væri mikilvægt fyrir dómarana að kanna rækilega hvernig hann hegðaði sér í brautinni. Maldonado staðfesti svo að hann væri í lagi. "Ég er í lagi og mér líður vel."

