Fenerbahce gerði sér lítið fyrir og sló út ítalska liðið Lazio í fjórðungsúrslitum Evrópudeildar UEFA í kvöld. Þá hafði Benfica betur gegn Newcastle.
Benfica var í sterkri stöðu eftir 3-1 sigur í Portúgal í fyrri leiknum gegn Newcastle. En enska liðið náði 1-0 forystu á 71. mínútu í kvöld þegar að Papiss Cisse skoraði með skalla. Eitt mark í viðbót og Newcastle væri komið áfram.
Heimamenn settu allt púður í sóknarleikinn og Benfica uppskar jöfnunarmark í lok leiksins þegar að Eduardo Salvio skoraði af stuttu færi eftir skyndisókn.
Tyrkneska liðið Fenerbahce hefur komið mörgum á óvart en liðið er nú komið í undanúrslit Evrópudeildarinnar. Liðið náði sterku 1-1 jafntefli gegn Lazio á Ítalíu í kvöld og tryggði sér þar með 3-1 samanlagðan sigur.
Senad Lulic kom Lazio yfir í kvöld en Caner Erkin eyddi allri óvissu þegar hann skoraði jöfnunarmark Fenerbahce.
