Fótbolti

AC Milan missti niður 2-0 forystu manni fleiri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Riccardo Montolivo fagnar marki sínu en margt átti eftir að breytast eftir það.
Riccardo Montolivo fagnar marki sínu en margt átti eftir að breytast eftir það. Mynd/Nordic Photos/Getty
Það dugði ekki AC Milan að komast í 2-0 og spila manni fleiri í fimmtíu mínútur þegar Fiorentina og AC Milan gerðu 2-2 jafntefli í ítölsku úrvalsdeildinni í fótbolta í hádeginu í dag.

Adem Ljajić (64. mínúta) og David Pizarro (73. mínúta) tryggðu Fiorentina 2-2 jafntefli með því að skora úr tveimur vítaspyrnum á síðustu 25 mínútum leiksins.

AC Milan er því áfram í 3. sæti deildarinnar nú einu stigi á eftir Napoli sem spilar við Genoa seinna í dag. Fiorentina er í 4. sætinu sex stigum á eftir AC Milan.

Serbinn Nenad Tomović fékk beint rautt spjalda á 40. mínútu en var þá Riccardo Montolivo búinn að koma AC Milan í 1-0 (14. mínúta). Montolivo lagði síðan upp mark fyrir Mathieu Flamini á 62. mínútu og allt leit út fyrir fimmta deildarsigur AC Milan í röð.

Fiorentina átti hinsvegar lokaorðið og tryggði sér jafntefli. Þetta var söguleg endurkoma hjá Fiorentína-liðinu því þetta er í fyrsta sinn á þessari öld sem liðið vinnur upp 2-0 forskot á móti AC Milan, Juventus eða Internazionale.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×