Formúla 1

Whitmarsh rólegur þrátt fyrir vandræði McLaren

Birgir Þór Harðarson skrifar
Whitmarsh hefur verið liðstjóri McLaren síðan 2007.
Whitmarsh hefur verið liðstjóri McLaren síðan 2007. nordicphotos/afp
Martin Whitmarsh, liðstjóri McLaren-liðsins, er enn rólegur þó byrjun McLaren-liðsins hafi ekki verið upp á marga fiska þetta árið. Liðið hefur aðeins skorað fjögur stig í fyrstu tveimur mótum ársins og er í sjöunda sæti í stigakeppni liða.

Þessi vonda byrjun á tímabilinu þýðir að helstu keppinautar McLaren-liðsins eru farnir að síga fram úr þó aðeins tvö mót séu búin. Red Bull er til að mynda með 66 stig í húsi, Lotus og Ferrari með 40 og Mercedes með 37. Þá eru Force India og Sauber með 10 og 4 stig í fimmta og sjötta sæti.

McLaren þarf því að spýta í lófana ætli þeir að fá eitthvað út úr þessu tímabili en síðast vann liðið titill árið 2008 þegar Lewis Hamilton vann heimsmeistaratitil ökuþóra.

Whitmarsh hefur því verið gagnrýndur harðlega fyrir stjórn sína á liðinu því árangurinn hefur ekki verið að sýna sig. Spurður hvernig hann taki þessari gagnrýni segist hann vera rólegur.

"Ég er áhugasamur um það sem ég er að gera og mér finnst ekki í lagi að hlutirnir gangi ekki upp. Við höfum þó mikið verk fyrir höndum og ég ætla ekki að bogna undan álaginu."

"Stjórnunarstíll minn er í raun einfaldur; ég hef verið beðinn um að benda á veikleika innan liðsins, á þá sem bera ábyrgð á lélegum úrslitum en það er ekki minn stíll. Þannig vinn ég ekki. Ég trúi að ökumennirnir okkar, vélvirkjarnir og allir liðsmenn séu góðir starfskraftar."

"Ef ég færi að taka ákvarðanir fyrir aðra innan liðsins og láta allt gerast þegar ég segi að það eigi að gerast þá mun okkur mistakast," sagði Whitmars við ESPN.

McLaren hefur aðeins haft fjóra liðstjóra við stjórnvölinn í Formúlu 1 síðan það var stofnað af Bruce McLaren árið 1966. Bruce stjórnaði liðinu 1966-1970, Bandaríkjamaðurinn Teddy Mayer 1970-1982, Ron Dennis frá 1982-2007 og nú síðast Martin Whitmarsh.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×