Fótbolti

Pastore: Það verður tilfinningaþrungið að mæta Messi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi.
Lionel Messi. Mynd/Nordic Photos/Getty
Argentínumaðurinn Javier Pastore hefur talað um hversu spenntur hann sé að mæta landa sínum Lionel Messi í vikunni þegar Paris Saint-Germain tekur á móti Barcelona í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

„Hann er besti fótboltamaðurinn í heimi og sannar það leik eftir leik. Fyrir okkur Argentínumenn þá er hann bæði fyrirmyndin og viðmiðið. Ég er mjög ánægður að fá tækifæri til að spila á móti honum. Þetta verður sérstök stund fyrir mig og svolítið tilfinningaþrungið," sagði Javier Pastore á heimasíðu PSG.

„Við verðum að halda einbeitingu í 90 mínútur og vera rólegir þegar við erum með boltann. Barcelona er lið sem nýtir sér minnstu mistök mótherja sinna. Það er erfitt að koma til baka á móti þeim," sagði Pastore.

„Þegar komið er svona langt í keppninni eru öll liðin mjög sterk. Það er samt allt mögulegt og við þurfum núna að spila tvo frábæra leiki," sagði Pastore. PSG og Barcelona mætast í París annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×