Þýski landsliðsmaðurinn Sami Khedira, leikmaður Real Madrid, fer ekkert í grafgötur með þann draum sinn að mæta Barcelona í úrslitum Meistaradeildarinnar í ár.
Liðin hafa þegar mæst sex sinnum á þessari leiktíð og finnst mörgum reyndar nóg um. Khedira fær aftur á móti ekki nóg af því að spila gegn Barcelona.
"Real Madrid gegn Barcelona er stærsti leikur heims og það yrðu allir ánægðir ef þessi lið myndu mætast í úrslitaleiknum á Wembley," sagði Khedira.
"Real Madrid er orðið að alvöru liði aftur. Ef þú ert ekki með alvöru lið þá geturðu ekki unnið Barcelona í tvígang og slegið Man. Utd út úr Meistaradeildinni á þeirra heimavelli."
