Staðan á Kýpur veldur ekki bara skjálfta og skelfingu í kauphöllum heimsins heldur einnig á helstu hrávörumörkuðum.
Þannig hefur tunnan af Brent olíunni lækkað um tæpa tvo dollara frá því á föstudag og stendur í rúmum 108 dollurum. Tunnan af bandarísku léttolíunni hefur lækkað um rúman dollar á sama tíma og stendur í rúmum 92 dollurum.
Tonnið af kopar hefur lækkað um nærri 200 dollara yfir helgina og álverðið hefur lækkað um 1% sem og soyjabaunir og hveiti.
Verð á gulli hinsvegar heldur sínu og hefur hækkað aðeins frá því fyrir helgina.
