Jose Mourinho hefur náð betri árangri en Sir Alex Ferguson þegar knattspyrnustjórarnir tveir hafa mæst með sín lið. Real Madrid mætir Manchester United á Old Trafford í kvöld í seinni leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar og verður þetta sextán viðureignin hjá liðum þeirra Mourinho og Ferguson.
Þegar þeir mættust síðast, sem var í Meistaradeildinni 2008-09, hafði Sir Alex Ferguson betur. Cristiano Ronaldo, núverandi leikmaður Real Madrid, skoraði þá í 2-0 sigri Manchester United á Internazionale í seinni leiknum í 16 liða úrslitum keppninnar sem fram fór á Old Trafford. Liðin gerðu markalaust jafntefli í Mílanó og United fór áfram.
Lið Jose Mourinho vann síðast leik á móti Alex Ferguson þegar Chelsea vann 1-0 sigur á Manchester United í úrslitaleik enska bikarsins 2007 en Didier Drogba skoraði sigurmarkið á 116. mínútu.
Jose Mourinho fagnaði síðast sigri á Old Trafford 10. maí 2005 þegar Chelsea vann 3-1 sigur á Manchester United í ensku úrvalsdeildinni. Eiður Smári Guðjohnsen skoraði annað mark Chelsea í leiknum og kom liðinu þá í 2-1.
Ruud Van Nistelrooy kom United í 1-0 á 8. mínútu, Tiago jafnaði fyrir Chelsea á 16. mínútu, Eiður Smári skoraði á 61. mínútu og Joe Cole innsiglaði sigurinn á 82. mínútu.
Tölur úr leikjum liða Mourinho og Ferguson:
Sigrar liða Mourinho - 6
Jafntefli - 6
Sigrar liða Ferguson - 6
Mörk liða Mourinho - 16
Mörk liða Ferguson - 13
Sundurliðað:
Mourinho með Porto : 1 sigur - 1 jafntefli - 0 töp, Markatala: 3-2
Mourinho með Chelsea: 5 sigrar - 3 jafntefli - 2 töp, Markatala: 12-8
Mourinho með Inter: 0 sigrar - 1 jafntefli - 1 tap, Markatala: 0-2
Mourinho með Real: 0 sigrar - 1 jafntefli - 0 töp, Markatala: 1-1
