Fótbolti

Ronaldo átti erfitt með tilfinningarnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Cristiano Ronaldo skoraði tvö af þremur mörkum Real Madrid í rimmunni gegn Manchester United í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Ronaldo spilaði í kvöld sinn fyrsta leik á Old Trafford síðan hann var seldur frá Manchester United til Real Madrid fyrir metfé árið 2009.

Hann skoraði sigurmark sinna manna í 2-1 sigri Real Madrid en hann skoraði einnig mark liðsins í 1-1 jafntefli í fyrri leiknum.

Ronaldo var vel tekið af stuðningsmönnum United í kvöld. „Þetta var ótrúlegt og afar tilfinningaþrungin stund fyrir mig. Mig skortir orðin til að útskýra hvernig mér leið," sagði hann.

„Ég varð feiminn við viðbrögðum stuðningsmannanna því mér fannst ég ekki spila eins vel í þessum tveimur leikjum og ég get. En ég skoraði tvö mörk og hjálpaði liðinu mínu þannig."

„Ég er ánægður með að Madrid hafi komist áfram en á hinn bóginn er ég leiður út af Manchester United. En svona er fótboltinn og í dag klæðist ég hvíta búningnum."

Ronaldo hefur verið orðaður við Manchester United á nýjan leik og vildi hann ekki útiloka neitt.

„Maður veit aldrei hvað gerist í framtíðinni. En ég er ánægður hjá Real Madrid og vil vera áfram þar. Við áttum ótrúlega viku - unnum Barcelona tvívegis og unnum svo Manchester United. Við viljum halda áfram á þessari braut og vinna þessa keppni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×