Sex karlmenn hafa verið úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald í tengslum við umfangsmikið amfetamínsmygl.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fer með rannsókn málsins en það tekur til innflutnings á hátt í tuttugu kílóum af amfetamíni og 1.7 lítra af amfetamínbasa — ætla má að hægt hefði verið að framleiða 17 kíló af amfetamíni úr basanum.
Er þetta eitt stærsta fíkniefnamál á Íslandi í langan tíma.
Efnin komu til landsins í nokkrum póstsendingum en það voru tollayfirvöld sem fundu efnin með aðstoð fíkniefnahunda. Efnin munu hafa komið frá Danmörku og hafa íslensk lögregluyfirvöld notið aðstoðar kollega sinna þar í landi við rannsókn málsins.
Þrír voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 14. mars á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Hinir þrír til 4. apríl á sömu forsendum.