Fyrri hálfleikur var rislítill en hann var jafn og spennandi. Jafnt var í hálfleik 10-10.
Fram byrjaði seinni hálfleik mun betur og náði fjögurra marka forystu 16-12. Þá skoraði Fram ekki í 11 mínútur en Haukur náðu samt ekki að jafna metin.
Eftir að Fram skoraði aftur keyrði liðið yfir slaka Hauka og vann Fram sanngjarnan sigur.
Elías Már Halldórsson og Freyr Brynjarsson fengu báðir beint rautt spjald á síðustu mínútunni og ljóst að Haukar áttu ákaflega erfitt með að kyngja fyrsta tapi vertrarins.
Einar: Erfitt að spila við okkur þegar menn eru heilir

„Ég var að velta fyrir mér að taka leikhlé og ég var líka að rótera á þessum tímapunkti og svo komu menn með ferskar lappir inn í lokin þannig að það er alltaf spurning hvenær maður á að rótera og hvenær ekki og kannski hittum við á rétta tímapunktinn en jú við skoruðum ekki í einhvern tíma en á móti kom þá hélt vörnin og markvarslan var góð.
„Þetta var heilt yfir góður leikur enda vorum við að spila við frábært lið Hauka. Það þarf að spila frábærlega til að sigra þá.
„Við erum með ótrúlega marga heila og það er fínn stígandi í þessu. Menn hafa stundað þetta vel og lagt mikið á sig. Við erum með gott lið, ég held að það viti það allir og þetta er spurning hvort þetta smelli og það er erfitt að spila við okkur þegar við erum með meirihluta mannskapsins heilan. Ég tala nú ekki þegar við spilum eins og í dag," sagði Einar
Aron: Vorum þungir

Við gerðum svolítið af mistökum varnarlega sem á ekki að sjást hjá okkur. Sóknarlega vorum við staðir og við tökum vitlausar ákvarðanir í seinni hálfleik. Framarar voru einfaldlega betri í dag. Svo er óþolandi að menn séu að fá rauð spjöld á síðustu leikmínútunum.
„Við vorum lélegir sóknarlega og erum komnir skammt á veg. Sigurbergur og Elías voru rétt tilbúnir fyrir leikinn og við þurfum að spila á þeim til að koma þeim inn í fyrsta leik í deildinni," sagði Aron.