Í þjónustu Nýdanskrar Björn Þór Sigbjörnsson skrifar 21. september 2012 06:00 Ert þú eitthvað fyrir skartgripi?" spurði söngvarinn mig þar sem við sátum hlið við hlið í rútunni. Spurningin kom flatt upp á mig en ég svaraði henni auðvitað neitandi enda hafði ég aldrei nokkurn tíma borið skartgrip. „Ég hef alltaf verið glysgjarn," sagði hann þá og lyfti höndunum til að sýna mér hringum prýdda sex eða sjö fingur, til að staðfesta orð sín. Fjólublár hatturinn sagði líka sína sögu svo ekki sé nú talað um pelsinn sem hann klæddist. Rútan var í Ártúnsbrekkunni og við á leið í eitthvert félagsheimilið í Húnavatnssýslunum. Það var semsagt löng ökuferð fram undan og ég segi það bara alveg eins og það var, mér leist ekkert á framhaldið með þennan Daníel Ágúst við hliðina á mér. Ég hafði verið ráðinn rótari hjá Nýdanskri, svo að segja nýfluttur frá Akureyri og kunni lítið á svona skrautlega náunga. Strax í Mosfellsbænum, eftir að við höfðum spjallað svolítið meira saman, var mér þó farið að líka vel við hann og þegar komið var á Kjalarnesið var ég til í sitja við hliðina á honum alla leið til Egilsstaða og heim aftur, svo glerfínn var hann. Að ráða mig sem rótara var á sinn hátt galið því ég hafði ekkert af því sem rótarar þurfa að hafa til að geta sinnt starfinu með sóma. Ég var til dæmis ekki með bílpróf sem kostaði vesen og peninga, ég var frekar rýr að afli og átti því erfitt með að bera Hammond-orgel og níðþunga magnara og svo kunni ég ekki á hljóðfæri sem gerði það að verkum að ég gat ekki stillt gítarana eða skipt um strengi í þeim. Ég hafði hins vegar sæmilega þjónustulund og gerði umyrðalaust það sem mér var sagt að gera og reyndi að gera það vel. Aðsóknin að tónleikunum um kvöldið var dræm. Það hafði gleymst að auglýsa eða taka með í reikninginn að það var sauðburður eða próf í framhaldsskólanum eða hvað það nú var. Alla vega komu fáir og því lítið í kassanum. Tónleikahaldarinn var með böggum hildar enda gat hann ekki borgað hljómsveitinni það sem samið var um. Björn Jörundur var skiljanlega ósáttur og lét hann heyra það. „Ef þú borgar ekki verður andlitið slitið af þér," öskraði hann á manninn. Ég stóð álengdar og fylgdist með og vonaði bara heitt og innilega að ég yrði ekki settur í verkið. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Björn Þór Sigbjörnsson Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Svar til lögmanns SFS Magnús Guðmundsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun
Ert þú eitthvað fyrir skartgripi?" spurði söngvarinn mig þar sem við sátum hlið við hlið í rútunni. Spurningin kom flatt upp á mig en ég svaraði henni auðvitað neitandi enda hafði ég aldrei nokkurn tíma borið skartgrip. „Ég hef alltaf verið glysgjarn," sagði hann þá og lyfti höndunum til að sýna mér hringum prýdda sex eða sjö fingur, til að staðfesta orð sín. Fjólublár hatturinn sagði líka sína sögu svo ekki sé nú talað um pelsinn sem hann klæddist. Rútan var í Ártúnsbrekkunni og við á leið í eitthvert félagsheimilið í Húnavatnssýslunum. Það var semsagt löng ökuferð fram undan og ég segi það bara alveg eins og það var, mér leist ekkert á framhaldið með þennan Daníel Ágúst við hliðina á mér. Ég hafði verið ráðinn rótari hjá Nýdanskri, svo að segja nýfluttur frá Akureyri og kunni lítið á svona skrautlega náunga. Strax í Mosfellsbænum, eftir að við höfðum spjallað svolítið meira saman, var mér þó farið að líka vel við hann og þegar komið var á Kjalarnesið var ég til í sitja við hliðina á honum alla leið til Egilsstaða og heim aftur, svo glerfínn var hann. Að ráða mig sem rótara var á sinn hátt galið því ég hafði ekkert af því sem rótarar þurfa að hafa til að geta sinnt starfinu með sóma. Ég var til dæmis ekki með bílpróf sem kostaði vesen og peninga, ég var frekar rýr að afli og átti því erfitt með að bera Hammond-orgel og níðþunga magnara og svo kunni ég ekki á hljóðfæri sem gerði það að verkum að ég gat ekki stillt gítarana eða skipt um strengi í þeim. Ég hafði hins vegar sæmilega þjónustulund og gerði umyrðalaust það sem mér var sagt að gera og reyndi að gera það vel. Aðsóknin að tónleikunum um kvöldið var dræm. Það hafði gleymst að auglýsa eða taka með í reikninginn að það var sauðburður eða próf í framhaldsskólanum eða hvað það nú var. Alla vega komu fáir og því lítið í kassanum. Tónleikahaldarinn var með böggum hildar enda gat hann ekki borgað hljómsveitinni það sem samið var um. Björn Jörundur var skiljanlega ósáttur og lét hann heyra það. „Ef þú borgar ekki verður andlitið slitið af þér," öskraði hann á manninn. Ég stóð álengdar og fylgdist með og vonaði bara heitt og innilega að ég yrði ekki settur í verkið.