Fullkomnun í hinu ófullkomna Arndís Þórarinsdóttir skrifar 11. september 2012 21:50 Lilli er viðfelldinn í meðförum Ævars Arnar Benediktssonar að mati gagnrýnanda en flónska refsins, sem Jóhannes Haukur leikur, dregur nokkuð úr hættunni. Byrjum á því mikilvægasta, lesandi góður: Farðu á Dýrin í Hálsaskógi! Farðu fyrir barnið í sjálfum þér og farðu með þau börn sem þér standa næst. Það verður skemmtilegt síðdegi og þið eigið eftir að koma syngjandi heim. Verk Thorbjörns Egner segja flóknar sögur á einfaldan hátt og eiga það sameiginlegt að fjalla um svo dásamlega gallaðar persónur að maður fyllist endurnýjaðri ást á mannkyninu við það eitt að kynnast þeim. Ágústa Skúladóttir fær snúið verkefni í Dýrunum í Hálsaskógi. Hún þarf að halda í gamalkunnugar hefðirnar, jafnframt því að setja sinn eigin svip á verkið. Og þennan meðalveg gengur henni nokkuð vel að feta. Fjörið er mikið og hjartað í verkinu kemst til skila. Lilli klifurmús og Mikki refur eru leiknir af Ævari Þór Benediktssyni og Jóhannesi Hauki Jóhannessyni. Lilli Ævars er viðfelldinn náungi, raunar svo viðfelldinn að maður skilur mætavel af hverju dýrin umbera hann þótt hann sé bæði latur og sjálfumglaður. Jóhannes spilar upp flónsku refsins, enda er næg innistæða fyrir þeirri lögn í handritinu. Það dregur hins vegar allnokkuð úr hættunni sem stafar af rebba og maður hefur betur fundið í öðrum uppfærslum. Marteinn skógarmús er skrítin skepna í þessari sýningu. Klæddur eins og miðaldra sérvitringur, hjákátlegur í háttum af óljósum orsökum. Jóhann G. Jóhannsson efldist þó nokkuð í síðari hlutanum þegar Marteinn sjálfur varð sterkari á svellinu. Ólafía Hrönn Jónsdóttir leikur Ömmu mús og í þeirri túlkun verður dálítið slys. Ólafía syngur raunakvæðið um stöðugan óttann við að vera étinn eins og hverjar aðrar skemmtivísur. Þannig hverfur alveg vitundin um ógnina sem að lokum ofbýður Marteini og fær hann til að rísa upp gegn gildandi venjum í skóginum með alkunnri lagafrumvarpsgerð sinni. Örn Árnason og Snorri Engilbertsson reka bakarí skógarins af miklum myndarskap og glaðnaði yfir salnum alltaf þegar þeir kumpánar komu inn á sviðið. Orri Huginn Ágústsson og Guðrún Snæfríður Gísladóttir gæddu hjónin á bænum miklu (og nokkuð óvæntu) lífi. Miklar raddir þeirra féllu veiðisöngnum vel og búningar og leikmunir gerðu innkomu þeirra ógleymanlega. Á sviðinu eru átta börn sem skapa tilfinningu fyrir lifandi samfélagi. Það var lyginni líkast hvað þessir ungu leikarar voru fimir, sjálfsöruggir og skemmtilegir. Gunnar Hrafn Kristjánsson geislaði í hlutverki Bangsa litla á frumsýningunni. Leikmynd Ilmar Stefánsdóttur samanstendur af fjórum trjám, einu í miðjunni sem er heimili hljómsveitarinnar og þremur sem standa á jaðri snúningssviðsins. Jaðartrén tengjast miðjutrénu með digrum bjálkum sem var svo kauðalegt að sjá að það var eins og að horfa ofan í matvinnsluvél á hreyfingu þegar sviðið fór af stað. Efst á miðjutrénu trónaði svo rauður plusssófi eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Aldrei fékkst tilfinning fyrir því að við værum stödd í stórum skógi því sjaldnast var nema lítill hluti leikmyndarinnar upplýstur í einu. Þetta var leiðinlegt því margir þættir hennar glöddu augað. Leikgervi Maríu Th. Ólafsdóttur voru almennt mjög skemmtileg. Mikki refur minnir á Oscar Wilde, nýskriðinn upp úr ópíumgreni í ódannaðri hluta Lundúnaborgar og Elgurinn vakti mikla kátínu þar sem hann hökti á fjórum löngum fótum. Tónlistin, undir stjórn Baldurs Ragnarssonar og Gunnars Ben., var vel flutt og skemmtileg, en verulega var tónlistarvalið sérkennilegt undir einræðum Mikka refs undir lok verksins. Það er auðvelt að finna eitthvað að uppfærslu á Dýrunum í Hálsaskógi. Ekkert leikverk þekkir þjóðin jafnvel. En þó að einstök útfærsluatriði séu umdeilanleg er uppfærsla á þessu verki á þessum stað algjört sælgæti sem væri synd að missa af. Mest lesið Æskudraumurinn varð að veruleika Lífið Stjörnulífið: Svona voru jólin hjá stjörnum landsins Lífið Steindi og Saga í stjörnuprýddum skets um typpalokk Lífið Dísella „loksins“ trúlofuð Lífið Eftirréttur ársins að hætti Elenoru Lífið Dóra Júlía og Bára gengu í það heilaga Lífið Sonur Völu og Óskars Loga kominn með nafn Lífið Álfurinn á slæmum stað: „Þetta voru erfið jól“ Lífið Innblástur fyrir áramótapartýið Lífið Áramótaheitin: Að sjá fyrir sér útkomuna en passa sig á nokkrum gryfjum Áskorun Fleiri fréttir Brostnar væntingar á Frostrósum Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Helgi Björns tryllti lýðinn á 40 ára afmæli Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Sjá meira
Byrjum á því mikilvægasta, lesandi góður: Farðu á Dýrin í Hálsaskógi! Farðu fyrir barnið í sjálfum þér og farðu með þau börn sem þér standa næst. Það verður skemmtilegt síðdegi og þið eigið eftir að koma syngjandi heim. Verk Thorbjörns Egner segja flóknar sögur á einfaldan hátt og eiga það sameiginlegt að fjalla um svo dásamlega gallaðar persónur að maður fyllist endurnýjaðri ást á mannkyninu við það eitt að kynnast þeim. Ágústa Skúladóttir fær snúið verkefni í Dýrunum í Hálsaskógi. Hún þarf að halda í gamalkunnugar hefðirnar, jafnframt því að setja sinn eigin svip á verkið. Og þennan meðalveg gengur henni nokkuð vel að feta. Fjörið er mikið og hjartað í verkinu kemst til skila. Lilli klifurmús og Mikki refur eru leiknir af Ævari Þór Benediktssyni og Jóhannesi Hauki Jóhannessyni. Lilli Ævars er viðfelldinn náungi, raunar svo viðfelldinn að maður skilur mætavel af hverju dýrin umbera hann þótt hann sé bæði latur og sjálfumglaður. Jóhannes spilar upp flónsku refsins, enda er næg innistæða fyrir þeirri lögn í handritinu. Það dregur hins vegar allnokkuð úr hættunni sem stafar af rebba og maður hefur betur fundið í öðrum uppfærslum. Marteinn skógarmús er skrítin skepna í þessari sýningu. Klæddur eins og miðaldra sérvitringur, hjákátlegur í háttum af óljósum orsökum. Jóhann G. Jóhannsson efldist þó nokkuð í síðari hlutanum þegar Marteinn sjálfur varð sterkari á svellinu. Ólafía Hrönn Jónsdóttir leikur Ömmu mús og í þeirri túlkun verður dálítið slys. Ólafía syngur raunakvæðið um stöðugan óttann við að vera étinn eins og hverjar aðrar skemmtivísur. Þannig hverfur alveg vitundin um ógnina sem að lokum ofbýður Marteini og fær hann til að rísa upp gegn gildandi venjum í skóginum með alkunnri lagafrumvarpsgerð sinni. Örn Árnason og Snorri Engilbertsson reka bakarí skógarins af miklum myndarskap og glaðnaði yfir salnum alltaf þegar þeir kumpánar komu inn á sviðið. Orri Huginn Ágústsson og Guðrún Snæfríður Gísladóttir gæddu hjónin á bænum miklu (og nokkuð óvæntu) lífi. Miklar raddir þeirra féllu veiðisöngnum vel og búningar og leikmunir gerðu innkomu þeirra ógleymanlega. Á sviðinu eru átta börn sem skapa tilfinningu fyrir lifandi samfélagi. Það var lyginni líkast hvað þessir ungu leikarar voru fimir, sjálfsöruggir og skemmtilegir. Gunnar Hrafn Kristjánsson geislaði í hlutverki Bangsa litla á frumsýningunni. Leikmynd Ilmar Stefánsdóttur samanstendur af fjórum trjám, einu í miðjunni sem er heimili hljómsveitarinnar og þremur sem standa á jaðri snúningssviðsins. Jaðartrén tengjast miðjutrénu með digrum bjálkum sem var svo kauðalegt að sjá að það var eins og að horfa ofan í matvinnsluvél á hreyfingu þegar sviðið fór af stað. Efst á miðjutrénu trónaði svo rauður plusssófi eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Aldrei fékkst tilfinning fyrir því að við værum stödd í stórum skógi því sjaldnast var nema lítill hluti leikmyndarinnar upplýstur í einu. Þetta var leiðinlegt því margir þættir hennar glöddu augað. Leikgervi Maríu Th. Ólafsdóttur voru almennt mjög skemmtileg. Mikki refur minnir á Oscar Wilde, nýskriðinn upp úr ópíumgreni í ódannaðri hluta Lundúnaborgar og Elgurinn vakti mikla kátínu þar sem hann hökti á fjórum löngum fótum. Tónlistin, undir stjórn Baldurs Ragnarssonar og Gunnars Ben., var vel flutt og skemmtileg, en verulega var tónlistarvalið sérkennilegt undir einræðum Mikka refs undir lok verksins. Það er auðvelt að finna eitthvað að uppfærslu á Dýrunum í Hálsaskógi. Ekkert leikverk þekkir þjóðin jafnvel. En þó að einstök útfærsluatriði séu umdeilanleg er uppfærsla á þessu verki á þessum stað algjört sælgæti sem væri synd að missa af.
Mest lesið Æskudraumurinn varð að veruleika Lífið Stjörnulífið: Svona voru jólin hjá stjörnum landsins Lífið Steindi og Saga í stjörnuprýddum skets um typpalokk Lífið Dísella „loksins“ trúlofuð Lífið Eftirréttur ársins að hætti Elenoru Lífið Dóra Júlía og Bára gengu í það heilaga Lífið Sonur Völu og Óskars Loga kominn með nafn Lífið Álfurinn á slæmum stað: „Þetta voru erfið jól“ Lífið Innblástur fyrir áramótapartýið Lífið Áramótaheitin: Að sjá fyrir sér útkomuna en passa sig á nokkrum gryfjum Áskorun Fleiri fréttir Brostnar væntingar á Frostrósum Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Helgi Björns tryllti lýðinn á 40 ára afmæli Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Sjá meira