Höftin fá nýtt nafn Þorsteinn Pálsson skrifar 1. september 2012 06:00 Í vikunni birti Seðlabankinn skýrslu til efnahagsráðherra um varúðarreglur eftir fjármagnshöft. Hún er áhugavert framlag til hagfræðilegrar umræðu um peningamálastjórnun. En hitt er þó ekki síðra að hún varpar ljósi á ýmsar pólitískar hliðar á þessu mikla viðfangsefni sem þarfnast skýringa. Skýrslan byggir á raunsæju mati á aðstæðum. Flestar hugmyndirnar hafa verið til umfjöllunar í alþjóðlegu samstarfi um hríð en aðrar eru séríslensk hugmyndafræði vegna aðstæðna sem hér ríkja en ekki annars staðar. Þarft og gott framlag af þessu tagi er reyndar löngu tímabært. Heiti skýrslunnar dregur fram fyrsta pólitíska álitaefnið: Varúðarreglur eftir fjármagnshöft. Hér er með mjög skýrum hætti gengið út frá því að frjáls gjaldeyrisviðskipti séu ekki í sjónmáli í náinni framtíð. Í raun er verið að boða fjölþættari reglur til að takmarka viðskipti með gjaldeyri. Þær má að sjálfsögðu, að erlendri fyrirmynd, kenna við varúð en það breytir ekki hinu að eftir sem áður fela þær í sér höft. Flest bendir til að gjaldeyrisviðskipti víðast hvar í heiminum verði háð strangari reglum en áður var. Fyrirsjáanlegt er hins vegar að takmarkanir verða mun meiri hér en í þeim ríkjum sem við jöfnum okkur helst til. Fyrir þá sök kann að vera nauðsynlegt að taka samninginn um Evrópska efnahagssvæðið upp. Þetta er sú framtíð sem við blasir. Hvernig ætla menn að mæta henni? Mun markaðsstaða Íslands raskast? Hvaða áhrif hefur þetta á hagvaxtarmöguleika til lengri tíma? Pólitíkin skuldar kjósendum svör við stórum spurningum. Umræðan bendir hins vegar til að bæði ríkisstjórnin og stjórnarandstöðuflokkarnir ætli að fara í kringum þær eins og heitan graut í kosningabaráttunni. Er engin forgangsleið? Önnur áhugaverð pólitísk hlið birtist í því að í skýrslunni segir að þegar sé farið að huga að því að koma þessari stefnumótun í búning laga og reglna. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að í júlí var hermt að ríkisstjórnin hefði samþykkt samningsmarkmið gagnvart Evrópusambandinu með þeirri afdráttarlausu stefnumörkun að Ísland stefndi að upptöku evru svo fljótt sem verða mætti. Þetta þýðir að ríkisstjórnin hefur hafið undirbúning að löggjöf á sviði peningamála sem byggir á annarri leið en hún sjálf samþykkti í sumar. Að vísu er nauðsynlegt að útfæra báðar leiðirnar og margt í þeim er samrýmanlegt. En menn verða að vita hvor leiðin er forgangsverkefnið og hvor er varaáætlun. Án frekari skýringa af hálfu ríkisstjórnarinnar er það á huldu. Slíkur ruglingur byggir hvorki upp traust heima fyrir né út á við gagnvart öðrum þjóðum. Brýnt er að útfæra áætlanir um þessar tvær meginleiðir. Fyrst og fremst vegna þess að þjóðin á rétt á að sjá þær og meta á málefnalegum forsendum. Það gerist ekki öðruvísi en þær séu til. Hitt er að gangi önnur ekki upp þarf varaplanið að liggja skýrt fyrir. Þó haldið sé af stað eftir annarri leiðinni er vitaskuld unnt að fara inn á hina síðar. Eins og sakir standa virðist pólitíska staðan vera sú að ríkisstjórnin veit ekki hvora leiðina hún hyggst fara. Báðir stjórnarandstöðuflokkarnir hafa hafnað evru. Þeir gagnrýna Seðlabankann. En með því að þeir eiga ekkert svar sjálfir eru þeir líklegir til að fylgja línu hans. Hætt er við að þjóðin eigi eftir að súpa seyðið af þessu ráðleysi. Birta verður bókun ríkisstjórnarinnar Þriðja pólitíska hliðin á þessu máli kom fram í grein innanríkisráðherra í þessu blaði í vikunni. Þar greindi hann frá því að VG hefði í ríkisstjórn gert þrjá fyrirvara við samningsmarkmiðin í peningamálum: Í fyrsta lagi um afnám hafta, í öðru lagi um aðild að ERM II gjaldeyrissamstarfinu og í þriðja lagi um upptöku evru. Þetta eru mikil tíðindi sem þó hafa hvorki vakið eftirtekt fjölmiðla né stjórnmálamanna. Erfitt er að véfengja orð ráðherrans. Það merkir að VG hefur í raun og veru stöðvað aðildarviðræðurnar í júlí. En er það svo? Samþykktu ráðherrar VG ekki samningsafstöðuplaggið? Samkvæmt þingræðisreglunni þarf stefna Íslands að njóta meirihlutastuðnings á Alþingi. Utanríkisráðherra getur því ekki rætt samningsafstöðuna um upptöku evru við ríki Evrópusambandsins nema ríkisstjórnarflokkarnir hafi verið efnislega sammála henni við ríkisstjórnarborðið og hana megi kynna sem stefnu Íslands án fyrirvara um kjarnaatriði hennar. Hvers vegna eru ráðherrar VG nú að óska eftir endurmati á aðildarviðræðunum ef þeir bókuðu þegar í júlí fyrirvara sem í reynd útiloka frekari viðræður. Til að eyða þessari óvissu er óhjákvæmilegt að birta bókun ríkisstjórnarinnar um þetta mál. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Skoðanir Þorsteinn Pálsson Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Svar til lögmanns SFS Magnús Guðmundsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun
Í vikunni birti Seðlabankinn skýrslu til efnahagsráðherra um varúðarreglur eftir fjármagnshöft. Hún er áhugavert framlag til hagfræðilegrar umræðu um peningamálastjórnun. En hitt er þó ekki síðra að hún varpar ljósi á ýmsar pólitískar hliðar á þessu mikla viðfangsefni sem þarfnast skýringa. Skýrslan byggir á raunsæju mati á aðstæðum. Flestar hugmyndirnar hafa verið til umfjöllunar í alþjóðlegu samstarfi um hríð en aðrar eru séríslensk hugmyndafræði vegna aðstæðna sem hér ríkja en ekki annars staðar. Þarft og gott framlag af þessu tagi er reyndar löngu tímabært. Heiti skýrslunnar dregur fram fyrsta pólitíska álitaefnið: Varúðarreglur eftir fjármagnshöft. Hér er með mjög skýrum hætti gengið út frá því að frjáls gjaldeyrisviðskipti séu ekki í sjónmáli í náinni framtíð. Í raun er verið að boða fjölþættari reglur til að takmarka viðskipti með gjaldeyri. Þær má að sjálfsögðu, að erlendri fyrirmynd, kenna við varúð en það breytir ekki hinu að eftir sem áður fela þær í sér höft. Flest bendir til að gjaldeyrisviðskipti víðast hvar í heiminum verði háð strangari reglum en áður var. Fyrirsjáanlegt er hins vegar að takmarkanir verða mun meiri hér en í þeim ríkjum sem við jöfnum okkur helst til. Fyrir þá sök kann að vera nauðsynlegt að taka samninginn um Evrópska efnahagssvæðið upp. Þetta er sú framtíð sem við blasir. Hvernig ætla menn að mæta henni? Mun markaðsstaða Íslands raskast? Hvaða áhrif hefur þetta á hagvaxtarmöguleika til lengri tíma? Pólitíkin skuldar kjósendum svör við stórum spurningum. Umræðan bendir hins vegar til að bæði ríkisstjórnin og stjórnarandstöðuflokkarnir ætli að fara í kringum þær eins og heitan graut í kosningabaráttunni. Er engin forgangsleið? Önnur áhugaverð pólitísk hlið birtist í því að í skýrslunni segir að þegar sé farið að huga að því að koma þessari stefnumótun í búning laga og reglna. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að í júlí var hermt að ríkisstjórnin hefði samþykkt samningsmarkmið gagnvart Evrópusambandinu með þeirri afdráttarlausu stefnumörkun að Ísland stefndi að upptöku evru svo fljótt sem verða mætti. Þetta þýðir að ríkisstjórnin hefur hafið undirbúning að löggjöf á sviði peningamála sem byggir á annarri leið en hún sjálf samþykkti í sumar. Að vísu er nauðsynlegt að útfæra báðar leiðirnar og margt í þeim er samrýmanlegt. En menn verða að vita hvor leiðin er forgangsverkefnið og hvor er varaáætlun. Án frekari skýringa af hálfu ríkisstjórnarinnar er það á huldu. Slíkur ruglingur byggir hvorki upp traust heima fyrir né út á við gagnvart öðrum þjóðum. Brýnt er að útfæra áætlanir um þessar tvær meginleiðir. Fyrst og fremst vegna þess að þjóðin á rétt á að sjá þær og meta á málefnalegum forsendum. Það gerist ekki öðruvísi en þær séu til. Hitt er að gangi önnur ekki upp þarf varaplanið að liggja skýrt fyrir. Þó haldið sé af stað eftir annarri leiðinni er vitaskuld unnt að fara inn á hina síðar. Eins og sakir standa virðist pólitíska staðan vera sú að ríkisstjórnin veit ekki hvora leiðina hún hyggst fara. Báðir stjórnarandstöðuflokkarnir hafa hafnað evru. Þeir gagnrýna Seðlabankann. En með því að þeir eiga ekkert svar sjálfir eru þeir líklegir til að fylgja línu hans. Hætt er við að þjóðin eigi eftir að súpa seyðið af þessu ráðleysi. Birta verður bókun ríkisstjórnarinnar Þriðja pólitíska hliðin á þessu máli kom fram í grein innanríkisráðherra í þessu blaði í vikunni. Þar greindi hann frá því að VG hefði í ríkisstjórn gert þrjá fyrirvara við samningsmarkmiðin í peningamálum: Í fyrsta lagi um afnám hafta, í öðru lagi um aðild að ERM II gjaldeyrissamstarfinu og í þriðja lagi um upptöku evru. Þetta eru mikil tíðindi sem þó hafa hvorki vakið eftirtekt fjölmiðla né stjórnmálamanna. Erfitt er að véfengja orð ráðherrans. Það merkir að VG hefur í raun og veru stöðvað aðildarviðræðurnar í júlí. En er það svo? Samþykktu ráðherrar VG ekki samningsafstöðuplaggið? Samkvæmt þingræðisreglunni þarf stefna Íslands að njóta meirihlutastuðnings á Alþingi. Utanríkisráðherra getur því ekki rætt samningsafstöðuna um upptöku evru við ríki Evrópusambandsins nema ríkisstjórnarflokkarnir hafi verið efnislega sammála henni við ríkisstjórnarborðið og hana megi kynna sem stefnu Íslands án fyrirvara um kjarnaatriði hennar. Hvers vegna eru ráðherrar VG nú að óska eftir endurmati á aðildarviðræðunum ef þeir bókuðu þegar í júlí fyrirvara sem í reynd útiloka frekari viðræður. Til að eyða þessari óvissu er óhjákvæmilegt að birta bókun ríkisstjórnarinnar um þetta mál.