Besta Akureyri í heimi Björn Þór Sigbjörnsson skrifar 31. ágúst 2012 06:00 Fyrsta minning mín frá Akureyri er einhvern veginn svona: Ég var átta ára og að leika mér á glænýja eldrauða fjögurra gíra hrútastýris-Superia hjólinu mínu fyrir utan heima. Ég var nýfluttur í bæinn og þekkti fáa. Vatt sér þá að mér hjólbeinóttur náungi sem var að bera út Íslending og spurði hvort hann mætti prófa. Svarið var einfalt: „Nei, ég má ekki lána." Þetta hefur verið rifjað upp reglulega í þau 32 ár sem liðin eru því blaðberinn varð síðar besti vinur minn. Við krakkarnir á Akureyri áttum bara tvennar buxur. Stuttbuxur fyrir sumrin og snjóbuxur fyrir veturna. Á Akureyri var veðrið nefnilega eins og það á að vera; með skörpum skilum milli árstíða. Það rigndi aldrei á Akureyri og ekki minnist ég þess að þar hafi vindur blásið að ráði. Bara sól eða snjókoma. Ég man fyrsta kossinn. Bak við bankann við Ráðhústorgið. Ég man þegar ég stal frostpinna í fyrsta (og segjum eina) skiptið. Í KEA við Brekkugötu. Ég man fyrsta sopann. Hann var vondur en samt góður á sinn hátt. Ég var í KA og hataði Þór. Auðvitað hataði ég ekki Þór en þóttist gera það. Rígurinn milli félaganna er nauðsynlegur. Baraflokkurinn var mín hljómsveit og við hjólbeinótti gaurinn hlustuðum á Catcher comin' og skoðuðum klámfengið plötuumslagið eins og enginn væri morgundagurinn. Akureyri var stór fyrir litla stráka en minnkaði auðvitað eftir því sem árin liðu og við urðum stærri. KEA var með búð á nánast hverju götuhorni og annar hver bæjarbúi vann hjá Sambandinu. En svo hættu Sambandið og KEA-búðirnar og þá fór ég suður. Ég sem aldrei ætlaði suður. Aldrei fór ég aldrei suður. Nú fer ég reglulega norður og stel frostpinna og geri allt hitt sem ég gerði áður. Ég er ferðamaður í gamla bænum mínum sem allt í einu er orðinn 150 ára en ber aldurinn einstaklega vel og lítur líklega betur út en nokkurn tíma fyrr. Allt þetta háskólafólk, þessar verslanir, þessi menning. Akureyri er klárlega besta Akureyri í heimi og ég er til í að rífast við hvern þann mann sem vill mótmæla því. Til hamingju Íslendingar með Akureyri. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Bakþankar Björn Þór Sigbjörnsson Skoðanir Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Svar til lögmanns SFS Magnús Guðmundsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun
Fyrsta minning mín frá Akureyri er einhvern veginn svona: Ég var átta ára og að leika mér á glænýja eldrauða fjögurra gíra hrútastýris-Superia hjólinu mínu fyrir utan heima. Ég var nýfluttur í bæinn og þekkti fáa. Vatt sér þá að mér hjólbeinóttur náungi sem var að bera út Íslending og spurði hvort hann mætti prófa. Svarið var einfalt: „Nei, ég má ekki lána." Þetta hefur verið rifjað upp reglulega í þau 32 ár sem liðin eru því blaðberinn varð síðar besti vinur minn. Við krakkarnir á Akureyri áttum bara tvennar buxur. Stuttbuxur fyrir sumrin og snjóbuxur fyrir veturna. Á Akureyri var veðrið nefnilega eins og það á að vera; með skörpum skilum milli árstíða. Það rigndi aldrei á Akureyri og ekki minnist ég þess að þar hafi vindur blásið að ráði. Bara sól eða snjókoma. Ég man fyrsta kossinn. Bak við bankann við Ráðhústorgið. Ég man þegar ég stal frostpinna í fyrsta (og segjum eina) skiptið. Í KEA við Brekkugötu. Ég man fyrsta sopann. Hann var vondur en samt góður á sinn hátt. Ég var í KA og hataði Þór. Auðvitað hataði ég ekki Þór en þóttist gera það. Rígurinn milli félaganna er nauðsynlegur. Baraflokkurinn var mín hljómsveit og við hjólbeinótti gaurinn hlustuðum á Catcher comin' og skoðuðum klámfengið plötuumslagið eins og enginn væri morgundagurinn. Akureyri var stór fyrir litla stráka en minnkaði auðvitað eftir því sem árin liðu og við urðum stærri. KEA var með búð á nánast hverju götuhorni og annar hver bæjarbúi vann hjá Sambandinu. En svo hættu Sambandið og KEA-búðirnar og þá fór ég suður. Ég sem aldrei ætlaði suður. Aldrei fór ég aldrei suður. Nú fer ég reglulega norður og stel frostpinna og geri allt hitt sem ég gerði áður. Ég er ferðamaður í gamla bænum mínum sem allt í einu er orðinn 150 ára en ber aldurinn einstaklega vel og lítur líklega betur út en nokkurn tíma fyrr. Allt þetta háskólafólk, þessar verslanir, þessi menning. Akureyri er klárlega besta Akureyri í heimi og ég er til í að rífast við hvern þann mann sem vill mótmæla því. Til hamingju Íslendingar með Akureyri.