„Hugleikur fær þann heiður að vígja galleríið okkar bæði með glænýjum myndum úr bókinni, sem hann er að gefa út í dag, og eldra efni," segir Kristján Freyr Halldórsson, verslunarstjóri í Bókabúð Máls og menningar á Laugavegi 18. „Galleríið verður opnað formlega á þriðju hæðinni klukkan 17 í dag með tilheyrandi gleði. Frændi Hugleiks, Örn Eldjárn, ætlar meðal annars að spila nokkur lög fyrir gesti og gangandi."
Um aðdragandann að opnun gallerísins hefur Kristján Freyr þetta að segja: „Þegar við settum upp ljósmyndasýningu í tilefni 50 ára afmælis bókabúðarinnar í fyrra áttuðum við okkur á að hér væri lítið um lausa veggi því þeir væru allir þaktir bókahillum. Þó hefur okkur lengi langað að Mál og menning væri heimili fyrir myndlistina rétt eins og ritlist og tónlist. Nú var ákveðið að taka nokkrar hillur af vegg við hlið kaffihússins Súfistans sem hér hefur verið frá 1996, og startaði sambúð kaffihúss og bókabúðar á Íslandi. Við tókum meira að segja eitt kaffiborðið þannig að bæði kaffihúsið og bókabúðin taka á sig fórnir til að bjóða myndlistinni heim."
Kristján segir Hugleik vera hagvanan í Bókabúð Máls og menningar. „Hann var starfsmaður þessarar verslunar um aldamótin 2000 þegar hann var að byrja að hefta saman bækurnar sínar sem hann hefur orðið svo þekktur fyrir," segir hann og kveðst ekki í vafa um að Hugleikur hafi haft áhrif með sínum myndum, að minnsta kosti stuðlað að auknu umburðarlyndi fyrir gálgahúmor hjá landanum.

Sýning Hugleiks myndar upphaf gallerístemningar í Bókabúð Máls og menningar. „Við ætlum að láta taka okkur alvarlega í þessum efnum og höfum fengið til liðs við okkur kunnáttufólk til að sjá um sýningar svo við bókabéusarnir séum ekki að fúska við neitt," segir Kristján Freyr.
„Oft koma út bækur tengdar myndlistarmönnum og forleggjurum líst vel á hafa svona gallerí inni í bókabúðinni."
gun@frettabladid.is