Ísland Björn Þór sigbjörnsson skrifar 22. júní 2012 06:00 Hann er orðinn heldur þreyttur söngurinn um Nýja Ísland sem svo oft hefur verið sunginn síðan bankarnir fóru á hliðina. Af minnsta tilefni er spurt: Er þetta Nýja Ísland? og látið eins og þjóðin hafi sammælst um að ekkert yrði eins og það var. Engin efni standa hins vegar til þess að þrot banka kalli á gjörbyltingu hugarfars heillar þjóðar þrátt fyrir að skellurinn hafi verið stór. Helst þarf að gæta að því að bankakerfið vaxi ekki öðrum stoðum efnahagskerfisins yfir höfuð á ný og að fólk lifi ekki lífinu út á krít. Úrlausnir skuldavanda vegna ólögmætra lána, hruns krónunnar og verðbólgu eru hefðbundin viðfangsefni stjórnmálanna og viðeigandi stofnana og fyrirtækja. Það er svo annað mál að alltof hægt hefur gengið í þeim efnum og helstu aðgerðir verið vanmáttugar og ómarkvissar. En hversu víðtæk er krafan um Nýtt Ísland? Hún er í raun alls ekki víðtæk og aðeins bundin við þröngan hóp. Það sannaðist í kosningunum vorið 2009 þegar kjósendur fylktu sér að baki gömlu flokkunum. Meirihlutinn kaus til forystu það fólk sem lengst hafði setið á þingi. Það hafði ekkert nýtt fram að færa. Kannski örlítið breyttar áherslur en ekkert nýtt. Það ætlar líka að sannast í forsetakosningunum um næstu helgi. Í skoðanakönnunum njóta þeir mesta fylgis sem minnstar vilja breytingarnar. Þeir frambjóðendur sem tala um eitthvað nýtt ná varla máli. Undantekningin frá þessu er stórsigur Besta flokksins í borgarstjórnarkosningunum 2010. En þar kemur líka tvennt til: Kjörtímabilið á undan var hræðilegt með öllum sínum meirihlutaskiptum og fyrrverandi borgarstjórum á biðlaunum og svo virðist borgarpólitíkin helst snúast um sorphirðu, snjómokstur og dagskrá 17. júní. Krafan um Nýtt Ísland felst einkum í að stjórnmála- og embættismenn ekki bara vinni öll sín verk fyrir opnum tjöldum heldur beinlínis hugsi upphátt, fólk hætti að hafa löngun til að hagnast og meina þeim sem unnu í bönkum fyrir hrun frekari þátttöku í samfélaginu. Hið fyrstnefnda er náttúrulega gott svo langt sem það nær. Forsendur ákvarðana eiga að þola dagsljósið. Hin atriðin eru dapurleg. Í þorpinu við Miðjarðarhafið, þar sem þessi orð eru skrifuð, birtist Ísland með tvennum hætti. Annars vegar í saltfiski og hins vegar í menningu. Hér er bacalao de Islandia sá allra besti og er rifinn út á matvörumarkaðnum og í bókabúðinni er bók Auðar Övu stillt upp með verkum þekktustu höfunda nútímabókmenntanna. Í listasafninu eru myndir Errós til sýnis. Þetta er Ísland, hvorki Nýja Ísland né Gamla Ísland, bara Ísland allra tíma sem hefur staðið af sér bankahrun og aðra óáran og spyr ekkert sérstaklega um gegnsæi, hagnaðarvon eða hvar menn hafa unnið í gegnum tíðina. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Björn Þór Sigbjörnsson Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun Opið bréf til undirbúningskjörbréfanefndar Alþingis Jóhann Friðrik Friðriksson, Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun
Hann er orðinn heldur þreyttur söngurinn um Nýja Ísland sem svo oft hefur verið sunginn síðan bankarnir fóru á hliðina. Af minnsta tilefni er spurt: Er þetta Nýja Ísland? og látið eins og þjóðin hafi sammælst um að ekkert yrði eins og það var. Engin efni standa hins vegar til þess að þrot banka kalli á gjörbyltingu hugarfars heillar þjóðar þrátt fyrir að skellurinn hafi verið stór. Helst þarf að gæta að því að bankakerfið vaxi ekki öðrum stoðum efnahagskerfisins yfir höfuð á ný og að fólk lifi ekki lífinu út á krít. Úrlausnir skuldavanda vegna ólögmætra lána, hruns krónunnar og verðbólgu eru hefðbundin viðfangsefni stjórnmálanna og viðeigandi stofnana og fyrirtækja. Það er svo annað mál að alltof hægt hefur gengið í þeim efnum og helstu aðgerðir verið vanmáttugar og ómarkvissar. En hversu víðtæk er krafan um Nýtt Ísland? Hún er í raun alls ekki víðtæk og aðeins bundin við þröngan hóp. Það sannaðist í kosningunum vorið 2009 þegar kjósendur fylktu sér að baki gömlu flokkunum. Meirihlutinn kaus til forystu það fólk sem lengst hafði setið á þingi. Það hafði ekkert nýtt fram að færa. Kannski örlítið breyttar áherslur en ekkert nýtt. Það ætlar líka að sannast í forsetakosningunum um næstu helgi. Í skoðanakönnunum njóta þeir mesta fylgis sem minnstar vilja breytingarnar. Þeir frambjóðendur sem tala um eitthvað nýtt ná varla máli. Undantekningin frá þessu er stórsigur Besta flokksins í borgarstjórnarkosningunum 2010. En þar kemur líka tvennt til: Kjörtímabilið á undan var hræðilegt með öllum sínum meirihlutaskiptum og fyrrverandi borgarstjórum á biðlaunum og svo virðist borgarpólitíkin helst snúast um sorphirðu, snjómokstur og dagskrá 17. júní. Krafan um Nýtt Ísland felst einkum í að stjórnmála- og embættismenn ekki bara vinni öll sín verk fyrir opnum tjöldum heldur beinlínis hugsi upphátt, fólk hætti að hafa löngun til að hagnast og meina þeim sem unnu í bönkum fyrir hrun frekari þátttöku í samfélaginu. Hið fyrstnefnda er náttúrulega gott svo langt sem það nær. Forsendur ákvarðana eiga að þola dagsljósið. Hin atriðin eru dapurleg. Í þorpinu við Miðjarðarhafið, þar sem þessi orð eru skrifuð, birtist Ísland með tvennum hætti. Annars vegar í saltfiski og hins vegar í menningu. Hér er bacalao de Islandia sá allra besti og er rifinn út á matvörumarkaðnum og í bókabúðinni er bók Auðar Övu stillt upp með verkum þekktustu höfunda nútímabókmenntanna. Í listasafninu eru myndir Errós til sýnis. Þetta er Ísland, hvorki Nýja Ísland né Gamla Ísland, bara Ísland allra tíma sem hefur staðið af sér bankahrun og aðra óáran og spyr ekkert sérstaklega um gegnsæi, hagnaðarvon eða hvar menn hafa unnið í gegnum tíðina.