Þrettán lið hjólreiðakappa munu næstu daga hjóla hringinn í kringum landið í alþjóðlegu hjólreiðakeppninni WOW Cyclothon. Liðin eru að safna áheitum vegna hjólreiðanna sem munu renna óskipt til áheitaverkefnis Barnaheilla sem nefnist „Hreyfing og líkamlegt heilbrigði barna“.
Liðin þrettán munu hjóla alls 1.332 kílómetra á fjórum dögum eftir boðsveitarformi en fjórir eru í hverju liði. Liðin munu safnast saman við Hörpu í kvöld og hjóla í lögreglufylgd að Ártúnsbrekku klukkan 19.00 þar sem keppnin hefst. Hægt er að heita á liðin á áheitavef Barnaheilla, www.heillakedjan.is/wow, en þegar hafa um 800.000 krónur safnast.- mþl
