Tveir leikir fara fram í fjórðungsúrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Um er að ræða síðari viðureignir í rimmum Barcelona og AC Milan annars vegar og Bayern og Marseille hins vegar. Bæjarar eru í góðri stöðu eftir 2-0 sigur á útivelli í fyrri leik liðanna en hin liðin skildu jöfn í fyrri leiknum sem fór fram á Ítalíu.
Augu flestra munu því beinast að Barcelona í kvöld þar sem Evrópumeistararnir freista þess að komast í undanúrslit Meistaradeildarinnar fimmta árið í röð. Aðeins Real Madrid hefur náð því afreki áður, frá 1956 til 1960.
Börsungar þykja vissulega sigurstranglegri á sínum ógnarsterka heimavelli en þegar liðin áttust þar við í riðlakeppninni í byrjun september varð niðurstaðan 2-2 jafntefli. Ef AC Milan skorar í kvöld dugar liðinu jafntefli til að slá Evrópumeistarana úr leik.
„Við kunnum bara að spila á einn máta – það er að sækja til sigurs," sagði Carles Puyol, fyrirliði Barcelona á blaðamannafundi í dag. „Við ætlum ekki að spila upp á markalaust jafntefli – aðeins sigur. AC Milan er í hópi bestu félagsliða Evrópu og þetta er leikur sem allir knattspyrnumenn taka þátt í. Við verðum að vera góðir á báðum endum vallarins ef við ætlum okkur að komast áfram."
Zlatan Ibrahimovic er hættulegasti leikmaður AC Milan en hann lék með Barcelona á sínum tíma. „Það verður ekki bara undir mér komið að halda honum í skefjum heldur þarf allt liðið að hafa gætur á honum," sagði Puyol.
Jupp Heynckes, þjálfari Bayern, ætlar ekki að slá slöku við í kvöld þrátt fyrir góða stöðu í einvíginu gegn Marseille. „Við ætlum að reyna að vinna leikinn. Við erum vissulega í góðri stöðu en það má ekki gleyma því að Marseille vann 3-2 sigur á Dortmund í riðlakeppninni eftir að hafa verið 2-0 undir í leiknum," sagði Heynckes.
Leikirnir hefjast báðir klukkan 18.45 í kvöld.
Kunnum bara að sækja til sigurs
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Mest lesið



„Einu skrefi nær því að verða næsti Sir Alex Ferguson“
Íslenski boltinn


Fjögur lið á toppnum með fjögur stig
Íslenski boltinn

Guðni Eiríksson: Markmannstaðan á Íslandi er ekki nógu góð
Íslenski boltinn

Arne Slot vonsvikinn með Trent Alexander-Arnold
Enski boltinn

Arteta varar Arsenal fólk við: Erfiðasta staðan að fylla
Enski boltinn

Leik KR og ÍBV seinkað vegna færðar
Íslenski boltinn
