Umhverfisvernd er íhaldsstefna Guðmundur Andri Thorsson skrifar 26. mars 2012 08:00 Mælingar kváðu herma að Svandís Svavarsdóttir sé sá ráðherra sem flestum þyki hafa staðið sig illa í starfi. Það er undarlegt. Það er erfitt að átta sig á því hvaða fólk er spurt og hví það er svona óánægt en skýringin liggur að minnsta kosti ekki í því að Svandís sé löt og hyskin eða svíkist um að vinna sín störf af samviskusemi. Öðru nær. Ætli sé þá ekki nærtækast að leita skýringa í því að þessu fólki mislíki það hversu rösk hún er og röggsöm. Að þetta fólk vilji ekki duglegan og drífandi umhverfisráðherra. Allt mannkyn á mikið undir náttúruvernd en kannski á það alveg sérstaklega við um Íslendinga – fyrst og fremst náttúrunnar sjálfrar vegna en líka vegna sjálfra sín, sjálfsmyndar sinnar og raunar beinharðra peningalegra hagsmuna, því að á ímynd ósnortinnar náttúru byggist aðdráttarafl landsins fyrir ferðamenn, og æ meir eftir því sem heimurinn spillist víðar. Eins og Jónas Hallgrímsson orti í erindinu úr Hulduljóðum sem við syngjum aldrei: Veitt hefur Fróni mikið og margt, / miskunnar faðir, en blindir menn / meta það aldrei eins og ber / unna því lítt sem fagurt er, / telja sér lítinn yndisarð / að annast blómgaðan jurtagarð." Við höfum séð sveitastjórnarmenn tala um mengunarvarnir sem „öfgar". Þeir hljóma eins og þeir telji það mannréttindi að fá að anda að sér díoxíni og sjálfsagt mál að Íslendingar séu undanþegnir reglum Evrópusambandsins um leyfileg mörk díoxínmengunar. Þeim virðist fyrirmunað að skilja að þessar reglur eru settar til að gæta hagsmuna almennings, sem þeim ber raunar að þjóna. Of oft heyrir maður og sér talað illa um náttúrufræðinga. Maður heyrir og sér talað um náttúruverndarmenn og jafnvel náttúruvísindamenn eins og þar fari slettirekur og boðflennur þegar mikið standi til, sem komi og eyðileggi allt út af „öfgum". Menn víla jafnvel ekki fyrir sér að tala um náttúruverndara í sömu andrá og hryðjuverkamenn, vegna þess að hinn snaróði Paul Watson sökkti hvalbátum hér um árið. Hvað er öfgafullt? Sá sem vill bjóða sínu fólki upp á margfalt magn þess sem leyfilegt er af díoxíni af því að hann tímir ekki að koma sér upp sómasamlegum mengunarvarnabúnaði við sorpbrennsluna – sá er öfgamaður; ekki það fólk sem vill að við öndum að okkur hreinu lofti, bergjum á hreinu vatni, drekkum hreina mjólk, snæðum hreint grænmeti, hreinan fisk og hreint kjöt: það eru ekki öfgar, það er hið eðlilega ástand á þessari góðu og gjöfulu jörð. Við þurfum ekki að gera annað en að læra að lifa af og með jörðinni og þá mun okkur farnast vel. Þá verðum við að velja framkvæmdir af kostgæfni og í góðri sátt við landið. Umhverfisvernd á ekki að vera hægri eða vinstri mál; of mikið er í húfi. Af hverju er það eitthvað hægri sinnað að rótast áfram eins og skammsýnt naut? Af hverju er fyrirhyggja og skynsemi í nýtingu náttúrunnar vinstri sinnuð? Of lengi hafa hægri sinnaðir stjórnmálamenn talað eins og þeir láti sér í léttu rúmi liggja hvað verður um jörðina og lífið á jörðinni, svo lengi sem hægt sé að moka upp „verðmætum". Of lengi hafa hægri menn lagt eyrun við þarfleysuhjali ábyrgðarlausra afneitunarsinna. Stundum vilja hægri sinnaðir stjórnmálamenn telja okkur trú um að þeim einum sé treystandi til að stýra landinu vegna þess að þeir sýni aðgæslu og ábyrgð, ráðdeild og festu. Það á ekki við um í umhverfismálum. Það á ekki við til að mynda um Bjarna Benediktsson sem lét sér sæma um daginn að tala um „öfgamenn í umhverfismálum" sem hafi rammaáætlun „í gíslingu". Hann var þar til að mynda að vísa til manna á borð við Orra Vigfússonar sem hefur verið í fararbroddi þeirra sem vilja vernda Þjórsá og lagt fram athyglisverðar hugmyndir um að byggja hana upp sem mikla laxveiðiá. Þetta er sami tónninn og mætti Ólafi F. Magnússyni þegar hann var á sinni tíð púaður út af landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Samt er þarna í Sjálfsstæðisflokknum viss hefð, viss saga. Einn þingmanna og áhrifamanna flokksins, Birgir Kjaran var einn kunnasti náttúruverndarsinni landsins og skrifaði bækur um þau efni; bókaforlag hægri manna, Almenna bókafélagið gaf út grundvallarrit um náttúruvernd, til að mynda hina frægu Raddir vorsins þagna sem Hannes Hólmsteinn er alltaf að reyna að afsanna í þrotlausri málsvörn sinni fyrir sóðaskapnum – og höfuðskáld þeirra Sjálfstæðismanna, Tómas Guðmundsson, orti nokkur áhrifamikil ljóð um náttúruverndarmál undir lok skáldferils síns. Við þurfum að fá heilbrigða íhaldsmenn í stjórnmálin. Varfærna, búralega, tortryggna, trausta íhaldsmenn sem eru á móti flumbrugangi og skyndigróðabralli en vilja halda í það sem er gott, rækta það og varðveita, fara fetið. Í útlöndum kallar slíkt fólk sig konservatíft – það er sama orðið sem haft er um varðveislu og vernd. Náttúruvernd er íhaldsstefna. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun Opið bréf til undirbúningskjörbréfanefndar Alþingis Jóhann Friðrik Friðriksson, Skoðun
Mælingar kváðu herma að Svandís Svavarsdóttir sé sá ráðherra sem flestum þyki hafa staðið sig illa í starfi. Það er undarlegt. Það er erfitt að átta sig á því hvaða fólk er spurt og hví það er svona óánægt en skýringin liggur að minnsta kosti ekki í því að Svandís sé löt og hyskin eða svíkist um að vinna sín störf af samviskusemi. Öðru nær. Ætli sé þá ekki nærtækast að leita skýringa í því að þessu fólki mislíki það hversu rösk hún er og röggsöm. Að þetta fólk vilji ekki duglegan og drífandi umhverfisráðherra. Allt mannkyn á mikið undir náttúruvernd en kannski á það alveg sérstaklega við um Íslendinga – fyrst og fremst náttúrunnar sjálfrar vegna en líka vegna sjálfra sín, sjálfsmyndar sinnar og raunar beinharðra peningalegra hagsmuna, því að á ímynd ósnortinnar náttúru byggist aðdráttarafl landsins fyrir ferðamenn, og æ meir eftir því sem heimurinn spillist víðar. Eins og Jónas Hallgrímsson orti í erindinu úr Hulduljóðum sem við syngjum aldrei: Veitt hefur Fróni mikið og margt, / miskunnar faðir, en blindir menn / meta það aldrei eins og ber / unna því lítt sem fagurt er, / telja sér lítinn yndisarð / að annast blómgaðan jurtagarð." Við höfum séð sveitastjórnarmenn tala um mengunarvarnir sem „öfgar". Þeir hljóma eins og þeir telji það mannréttindi að fá að anda að sér díoxíni og sjálfsagt mál að Íslendingar séu undanþegnir reglum Evrópusambandsins um leyfileg mörk díoxínmengunar. Þeim virðist fyrirmunað að skilja að þessar reglur eru settar til að gæta hagsmuna almennings, sem þeim ber raunar að þjóna. Of oft heyrir maður og sér talað illa um náttúrufræðinga. Maður heyrir og sér talað um náttúruverndarmenn og jafnvel náttúruvísindamenn eins og þar fari slettirekur og boðflennur þegar mikið standi til, sem komi og eyðileggi allt út af „öfgum". Menn víla jafnvel ekki fyrir sér að tala um náttúruverndara í sömu andrá og hryðjuverkamenn, vegna þess að hinn snaróði Paul Watson sökkti hvalbátum hér um árið. Hvað er öfgafullt? Sá sem vill bjóða sínu fólki upp á margfalt magn þess sem leyfilegt er af díoxíni af því að hann tímir ekki að koma sér upp sómasamlegum mengunarvarnabúnaði við sorpbrennsluna – sá er öfgamaður; ekki það fólk sem vill að við öndum að okkur hreinu lofti, bergjum á hreinu vatni, drekkum hreina mjólk, snæðum hreint grænmeti, hreinan fisk og hreint kjöt: það eru ekki öfgar, það er hið eðlilega ástand á þessari góðu og gjöfulu jörð. Við þurfum ekki að gera annað en að læra að lifa af og með jörðinni og þá mun okkur farnast vel. Þá verðum við að velja framkvæmdir af kostgæfni og í góðri sátt við landið. Umhverfisvernd á ekki að vera hægri eða vinstri mál; of mikið er í húfi. Af hverju er það eitthvað hægri sinnað að rótast áfram eins og skammsýnt naut? Af hverju er fyrirhyggja og skynsemi í nýtingu náttúrunnar vinstri sinnuð? Of lengi hafa hægri sinnaðir stjórnmálamenn talað eins og þeir láti sér í léttu rúmi liggja hvað verður um jörðina og lífið á jörðinni, svo lengi sem hægt sé að moka upp „verðmætum". Of lengi hafa hægri menn lagt eyrun við þarfleysuhjali ábyrgðarlausra afneitunarsinna. Stundum vilja hægri sinnaðir stjórnmálamenn telja okkur trú um að þeim einum sé treystandi til að stýra landinu vegna þess að þeir sýni aðgæslu og ábyrgð, ráðdeild og festu. Það á ekki við um í umhverfismálum. Það á ekki við til að mynda um Bjarna Benediktsson sem lét sér sæma um daginn að tala um „öfgamenn í umhverfismálum" sem hafi rammaáætlun „í gíslingu". Hann var þar til að mynda að vísa til manna á borð við Orra Vigfússonar sem hefur verið í fararbroddi þeirra sem vilja vernda Þjórsá og lagt fram athyglisverðar hugmyndir um að byggja hana upp sem mikla laxveiðiá. Þetta er sami tónninn og mætti Ólafi F. Magnússyni þegar hann var á sinni tíð púaður út af landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Samt er þarna í Sjálfsstæðisflokknum viss hefð, viss saga. Einn þingmanna og áhrifamanna flokksins, Birgir Kjaran var einn kunnasti náttúruverndarsinni landsins og skrifaði bækur um þau efni; bókaforlag hægri manna, Almenna bókafélagið gaf út grundvallarrit um náttúruvernd, til að mynda hina frægu Raddir vorsins þagna sem Hannes Hólmsteinn er alltaf að reyna að afsanna í þrotlausri málsvörn sinni fyrir sóðaskapnum – og höfuðskáld þeirra Sjálfstæðismanna, Tómas Guðmundsson, orti nokkur áhrifamikil ljóð um náttúruverndarmál undir lok skáldferils síns. Við þurfum að fá heilbrigða íhaldsmenn í stjórnmálin. Varfærna, búralega, tortryggna, trausta íhaldsmenn sem eru á móti flumbrugangi og skyndigróðabralli en vilja halda í það sem er gott, rækta það og varðveita, fara fetið. Í útlöndum kallar slíkt fólk sig konservatíft – það er sama orðið sem haft er um varðveislu og vernd. Náttúruvernd er íhaldsstefna.