Stjórnlagaklúður Ólafur Þ. Stephensen skrifar 22. mars 2012 06:00 Stjórnarmeirihlutanum á Alþingi virðist ætla að takast að klúðra enn einu stórmáli, endurskoðun stjórnarskrárinnar. Uppleggið var þó ekki slæmt. Alþingi hefur aldrei ráðið við það verkefni sitt að endurskoða stjórnarskrána í heild, sem stefnt var að fljótlega eftir lýðveldisstofnun. Málið hefur alltaf týnzt ofan í skotgröfum flokka- og kjördæmapólitíkur. Það var þess vegna rétt ákvörðun að taka það úr hinum hefðbundna farvegi samningaviðræðna stjórnmálaflokka og fela stjórnlagaþingi að semja drög að nýrri stjórnarskrá. Stór mistök voru hins vegar gerð eftir að Hæstiréttur dæmdi kosninguna til stjórnlagaþings ógilda. Þá kom raunar ekkert annað til greina en að endurtaka kosninguna, en þess í stað voru úrslit hennar látin gilda og þinginu breytt í stjórnlagaráð. Þar með var búið að veikja umboð þess og trúverðugleika. Margt er til bóta í tillögunni sem stjórnlagaráðið skilaði af sér. En jafnframt hefur með góðum rökum verið bent á að þar sé margt óljóst og opið fyrir túlkun, til dæmis ákvæði um forsetaembættið, og ýmis fleiri atriði sem orka tvímælis. Ekki sízt vegna þess vafa sem leikur á um umboð stjórnlagaráðs bar Alþingi skylda til að fjalla efnislega um tillöguna, sækja sér ráðgjöf sérfræðinga, endurskoða málið og sníða af því ágalla. Stjórnarmeirihlutinn réði því að það var ekki gert. Svo virðist raunar sem hvorugur stjórnarflokkurinn hafi myndað sér efnislega afstöðu til tillagna stjórnlagaráðs. Þess í stað vísaði Alþingi málinu frá sér til nýs fundar stjórnlagaráðs, sem hafði óljósan tilgang. Nú liggur fyrir undarleg tillaga meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins um að bera tillögu stjórnlagaráðs undir þjóðina í ráðgefandi atkvæðagreiðslu, en þó ekki í endanlegri mynd, heldur er spurt hvort fólk vilji að tillagan verði lögð fram sem frumvarp „eftir að hún hefur verið yfirfarin með tilliti til laga og alþjóðasamninga". Hefði ekki verið nær að þingið yfirfæri tillöguna fyrst, meðal annars með tilliti til laga og alþjóðasamninga, og spyrði svo þjóðina álits? Ennfremur á að bera fimm álitaefni tengd stjórnarskrá undir þjóðina; ákvæði um náttúruauðlindir, þjóðkirkjuna, persónukjör, jafnan atkvæðisrétt og hvort ákvæði eigi að vera í stjórnarskrá um að tiltekinn minnihluti kjósenda geti farið fram á þjóðaratkvæði. Allt eru þetta gildar spurningar, en eru þær endilega þær réttu? Æpandi er til dæmis fjarvera spurningar um eitt heitasta deilumálið tengt stjórnskipaninni undanfarin ár: Á forseti Íslands að hafa vald til að taka fram fyrir hendur Alþingis og vísa lögum í þjóðaratkvæðagreiðslu að eigin geðþótta? Málskotsréttur forsetans virðist óþarfur, verði þjóðinni sjálfri fenginn slíkur réttur í stjórnarskrá. Hugsanlega óttaðist stjórnarmeirihlutinn að spurningar um forsetaembættið myndu hafa áhrif á baráttuna fyrir forsetakosningar, sem fara fram á sama tíma og fyrirhuguð þjóðaratkvæðagreiðsla. Það eru réttmætar áhyggjur; að greiða atkvæði um þetta tvennt á sama tíma getur orðið til þess að umræðan fari í einn graut. En það er fremur tilefni til að halda atkvæðagreiðsluna á öðrum tíma en að sleppa einna augljósustu spurningunni um stjórnskipunina. Alþingi ætti að salta tillögu þingnefndarinnar og einbeita sér að því að búa málið þannig úr garði að það eigi erindi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er mikilvægara að endurskoðuð stjórnarskrá sé vönduð en að hún verði afgreidd með hraði. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Forsetakosningar 2012 Ólafur Stephensen Skoðanir Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun Opið bréf til undirbúningskjörbréfanefndar Alþingis Jóhann Friðrik Friðriksson, Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun
Stjórnarmeirihlutanum á Alþingi virðist ætla að takast að klúðra enn einu stórmáli, endurskoðun stjórnarskrárinnar. Uppleggið var þó ekki slæmt. Alþingi hefur aldrei ráðið við það verkefni sitt að endurskoða stjórnarskrána í heild, sem stefnt var að fljótlega eftir lýðveldisstofnun. Málið hefur alltaf týnzt ofan í skotgröfum flokka- og kjördæmapólitíkur. Það var þess vegna rétt ákvörðun að taka það úr hinum hefðbundna farvegi samningaviðræðna stjórnmálaflokka og fela stjórnlagaþingi að semja drög að nýrri stjórnarskrá. Stór mistök voru hins vegar gerð eftir að Hæstiréttur dæmdi kosninguna til stjórnlagaþings ógilda. Þá kom raunar ekkert annað til greina en að endurtaka kosninguna, en þess í stað voru úrslit hennar látin gilda og þinginu breytt í stjórnlagaráð. Þar með var búið að veikja umboð þess og trúverðugleika. Margt er til bóta í tillögunni sem stjórnlagaráðið skilaði af sér. En jafnframt hefur með góðum rökum verið bent á að þar sé margt óljóst og opið fyrir túlkun, til dæmis ákvæði um forsetaembættið, og ýmis fleiri atriði sem orka tvímælis. Ekki sízt vegna þess vafa sem leikur á um umboð stjórnlagaráðs bar Alþingi skylda til að fjalla efnislega um tillöguna, sækja sér ráðgjöf sérfræðinga, endurskoða málið og sníða af því ágalla. Stjórnarmeirihlutinn réði því að það var ekki gert. Svo virðist raunar sem hvorugur stjórnarflokkurinn hafi myndað sér efnislega afstöðu til tillagna stjórnlagaráðs. Þess í stað vísaði Alþingi málinu frá sér til nýs fundar stjórnlagaráðs, sem hafði óljósan tilgang. Nú liggur fyrir undarleg tillaga meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins um að bera tillögu stjórnlagaráðs undir þjóðina í ráðgefandi atkvæðagreiðslu, en þó ekki í endanlegri mynd, heldur er spurt hvort fólk vilji að tillagan verði lögð fram sem frumvarp „eftir að hún hefur verið yfirfarin með tilliti til laga og alþjóðasamninga". Hefði ekki verið nær að þingið yfirfæri tillöguna fyrst, meðal annars með tilliti til laga og alþjóðasamninga, og spyrði svo þjóðina álits? Ennfremur á að bera fimm álitaefni tengd stjórnarskrá undir þjóðina; ákvæði um náttúruauðlindir, þjóðkirkjuna, persónukjör, jafnan atkvæðisrétt og hvort ákvæði eigi að vera í stjórnarskrá um að tiltekinn minnihluti kjósenda geti farið fram á þjóðaratkvæði. Allt eru þetta gildar spurningar, en eru þær endilega þær réttu? Æpandi er til dæmis fjarvera spurningar um eitt heitasta deilumálið tengt stjórnskipaninni undanfarin ár: Á forseti Íslands að hafa vald til að taka fram fyrir hendur Alþingis og vísa lögum í þjóðaratkvæðagreiðslu að eigin geðþótta? Málskotsréttur forsetans virðist óþarfur, verði þjóðinni sjálfri fenginn slíkur réttur í stjórnarskrá. Hugsanlega óttaðist stjórnarmeirihlutinn að spurningar um forsetaembættið myndu hafa áhrif á baráttuna fyrir forsetakosningar, sem fara fram á sama tíma og fyrirhuguð þjóðaratkvæðagreiðsla. Það eru réttmætar áhyggjur; að greiða atkvæði um þetta tvennt á sama tíma getur orðið til þess að umræðan fari í einn graut. En það er fremur tilefni til að halda atkvæðagreiðsluna á öðrum tíma en að sleppa einna augljósustu spurningunni um stjórnskipunina. Alþingi ætti að salta tillögu þingnefndarinnar og einbeita sér að því að búa málið þannig úr garði að það eigi erindi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er mikilvægara að endurskoðuð stjórnarskrá sé vönduð en að hún verði afgreidd með hraði.