Frá trú til skynsemi Jón Ormur Halldórsson skrifar 9. febrúar 2012 06:00 Það er undur stutt síðan málið sýndist afgreitt. Þetta með markaðina og ríkið. Markaðir vissu og gátu en ríkið þvældist fyrir. Þetta mál málanna í stjórnmálum var raunar hvergi afgreitt utan Vesturlanda. Síst í Asíu þar sem menn hafa náð heimssögulegum árangri í efnahagsmálum á síðustu árum. Sá árangur hefur gefið nokkrum ríkjum kennivald sem mikinn hroka þarf til að hafna. LýðræðiÞessi ríki hafa þó lítið að kenna Vesturlöndum um mannréttindi eða lýðræði og oft minna en menn halda um fíngerðari hluti mannlífsins. Hagstjórn í þeim ríkjum sem best hafa staðið sig hefur hins vegar í veigamestu atriðum lítið með einræði eða lýðræði að gera. Flest eru þau líka að þróast í átt til aukins lýðræðis sem mun efla þau enn frekar. Þrenn mistökSingapúrbúinn og diplómatinn Mahbubani, einn af gleggri dálkahöfundum Asíu, skrifaði nýlega á þá leið að Vesturlönd hefðu lent í kreppu vegna þrennra mistaka. Ein voru að taka hugmyndafræðilega frekar en praktíska afstöðu til markaða. Önnur voru gleymska á þau sannindi að kapítalisminn lifir ekki nema flestir þjóðfélagshópar hafi hag af honum. Þau þriðju voru að lofa sköpunarmátt kapítalismans en gleyma því að öll sköpun byggir á eyðileggingu þess sem fyrir er. Sjálfstæði ríkisvaldsinsAsískir menntamenn hafa lengi undrast þá hugmyndafræðilegu trú sem vestrænir menn hafa á mörkuðum. Þótt mörg lönd Asíu séu opin markaðskerfi er hvergi þar í álfu að finna þá einlægu trú á mörkuðum sem er ríkjandi í Bandaríkjunum og var ráðandi hérlendis og víðar í Evrópu um nokkurn tíma. Í Asíu snúast umræður um markaði oftast um praktískar leiðir til nota þá og um það hvernig efla megi styrk og sjálfstæði ríkisvaldsins svo það geti veitt mörkuðum virkt aðhald. GleymskaMenn vissu við lok stríðsins að kapítalisminn myndi ekki lifa af í Evrópu nema tvennt kæmi til. Annað, að menn gætu hamið verstu sveiflur kapítalismans og komið í veg fyrir kreppur sem leiddu til skelfinga hjá launafólki. Hitt, að til yrðu velferðarkerfi sem tryggðu almenna menntun, aðgengi allra að heilsugæslu og sæmilegan jöfnuð í lífskjörum. Þetta tókst og það svo vel að til urðu í Evrópu einhver upplýstustu, jöfnustu og heilbrigðustu samfélög í sögu heimsins. En svo gleymdist þetta aftur. Skapandi eyðileggingMenn vissu líka að heimsvæðingin myndi eyða störfum á Vesturlöndum og auka ójöfnuð. Þetta er af einföldum ástæðum. Heimsvæðingin snýst um að gera allan heiminn að einum vinnumarkaði og ná þannig sem mestri skilvirkni. Vestræn ríki með dýrt vinnuafl geta ekki keppt við ódýrara vinnuafl í risasamfélögum Asíu nema með því að hækka sífellt tæknistig og auka menntun vinnuaflsins. Ef ekki, þá fellur kaupmáttur og atvinnuleysi eykst. Með heimsvæðingunni vaxa hins vegar tækifæri þeirra sem mest kunna fyrir sér og ójöfnuður eykst. Þetta eiga menn að vita en ríki Vesturlanda hafa ekki brugðist rétt við. Lömun ríkisvaldsÁstæðurnar fyrir fátæklegum viðbrögðum eru þrjár. Ríkisvald á Vesturlöndum hefur verið að veikjast af pólitískum ástæðum. Hugmyndafræðileg tíska hefur líka meinað mönnum að beita þeim björgum sem ríkin búa þó yfir. Ábyrgðarlaus skuldsetning ríkja á síðustu áratugum hefur að auki dregið stórlega úr getu þeirra til að bregðast við með aukinni fjárfestingu í menntakerfum, rannsóknum, stoðkerfum og atvinnusköpun. Ríkisstjórnir í vandaSvo kom kreppa og kröfur manna urðu meiri en ríkisstjórnir fá ráðið við. Þær hafa misst vald bæði til alþjóðlegra markaða og innlendra. Valdið hefur líka færst frá kjósendum til neytenda, sem er að vísu sami hópurinn en með ólíka sýn og hagsmuni þó. Menn hrópuðu fyrir skemmstu sem neytendur en nú hrópa þeir sem kjósendur. Kjósendur skiptast að auki meira en fyrr eftir ólíkum hagsmunum kynslóða, sem pólitíska kerfið ræður illa við. Þeir skuldsettu á miðjum aldri hafa allt aðra hagsmuni en þeir eldri sem vilja öruggan lífeyri og sem minnsta skatta. Mörg módelKapítalisminn er ekki á útleið. Af honum eru líka til hin ólíkustu afbrigði. Sum bera þess merki að hagsmunir einstakra atvinnugreina hafa ráðið miklu í stjórnmálum. Víða í Evrópu var reynslan af afskiptum ríkisins af atvinnulífi lengi mjög slæm og markaðslausnir sýndust því heillandi. Afreglun átti að leiða menn frá klíkuskap, pólitískri spillingu, óskilvirkni og sérhagsmunum. Hún leiddi inn í annað öngstræti. Þau módel af kapítalismanum sem nú eru við lýði, ein fjögur eða fimm í Evrópu og önnur fjögur eða fimm í Asíu, bjóða fram ólíka kosti. Innan þeirra takast á hagsmunir, trú og skynsemi. Trúin er víða að veikjast. SkynsemiMálið snýst öðru fremur um að finna módel þar sem sértækir hagsmunir ráða sem minnstu. Hverjir sem þeir eru. Og þar sem skynsemi fær að ráða oftar en kreddur. Ríki hafa stærra hlutverk við uppbyggingu atvinnulífs en að forða verðbólgu með tískukenningum hvers tíma í peningastjórn. Hagkerfið er undirstaða alls þjóðlífsins og ekki fyrir fikt eða fúsk. Skynsemi er stundum snjallari en markaðir og alltaf betri en kreddur. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Jón Ormur Halldórsson Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Svar til lögmanns SFS Magnús Guðmundsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun
Það er undur stutt síðan málið sýndist afgreitt. Þetta með markaðina og ríkið. Markaðir vissu og gátu en ríkið þvældist fyrir. Þetta mál málanna í stjórnmálum var raunar hvergi afgreitt utan Vesturlanda. Síst í Asíu þar sem menn hafa náð heimssögulegum árangri í efnahagsmálum á síðustu árum. Sá árangur hefur gefið nokkrum ríkjum kennivald sem mikinn hroka þarf til að hafna. LýðræðiÞessi ríki hafa þó lítið að kenna Vesturlöndum um mannréttindi eða lýðræði og oft minna en menn halda um fíngerðari hluti mannlífsins. Hagstjórn í þeim ríkjum sem best hafa staðið sig hefur hins vegar í veigamestu atriðum lítið með einræði eða lýðræði að gera. Flest eru þau líka að þróast í átt til aukins lýðræðis sem mun efla þau enn frekar. Þrenn mistökSingapúrbúinn og diplómatinn Mahbubani, einn af gleggri dálkahöfundum Asíu, skrifaði nýlega á þá leið að Vesturlönd hefðu lent í kreppu vegna þrennra mistaka. Ein voru að taka hugmyndafræðilega frekar en praktíska afstöðu til markaða. Önnur voru gleymska á þau sannindi að kapítalisminn lifir ekki nema flestir þjóðfélagshópar hafi hag af honum. Þau þriðju voru að lofa sköpunarmátt kapítalismans en gleyma því að öll sköpun byggir á eyðileggingu þess sem fyrir er. Sjálfstæði ríkisvaldsinsAsískir menntamenn hafa lengi undrast þá hugmyndafræðilegu trú sem vestrænir menn hafa á mörkuðum. Þótt mörg lönd Asíu séu opin markaðskerfi er hvergi þar í álfu að finna þá einlægu trú á mörkuðum sem er ríkjandi í Bandaríkjunum og var ráðandi hérlendis og víðar í Evrópu um nokkurn tíma. Í Asíu snúast umræður um markaði oftast um praktískar leiðir til nota þá og um það hvernig efla megi styrk og sjálfstæði ríkisvaldsins svo það geti veitt mörkuðum virkt aðhald. GleymskaMenn vissu við lok stríðsins að kapítalisminn myndi ekki lifa af í Evrópu nema tvennt kæmi til. Annað, að menn gætu hamið verstu sveiflur kapítalismans og komið í veg fyrir kreppur sem leiddu til skelfinga hjá launafólki. Hitt, að til yrðu velferðarkerfi sem tryggðu almenna menntun, aðgengi allra að heilsugæslu og sæmilegan jöfnuð í lífskjörum. Þetta tókst og það svo vel að til urðu í Evrópu einhver upplýstustu, jöfnustu og heilbrigðustu samfélög í sögu heimsins. En svo gleymdist þetta aftur. Skapandi eyðileggingMenn vissu líka að heimsvæðingin myndi eyða störfum á Vesturlöndum og auka ójöfnuð. Þetta er af einföldum ástæðum. Heimsvæðingin snýst um að gera allan heiminn að einum vinnumarkaði og ná þannig sem mestri skilvirkni. Vestræn ríki með dýrt vinnuafl geta ekki keppt við ódýrara vinnuafl í risasamfélögum Asíu nema með því að hækka sífellt tæknistig og auka menntun vinnuaflsins. Ef ekki, þá fellur kaupmáttur og atvinnuleysi eykst. Með heimsvæðingunni vaxa hins vegar tækifæri þeirra sem mest kunna fyrir sér og ójöfnuður eykst. Þetta eiga menn að vita en ríki Vesturlanda hafa ekki brugðist rétt við. Lömun ríkisvaldsÁstæðurnar fyrir fátæklegum viðbrögðum eru þrjár. Ríkisvald á Vesturlöndum hefur verið að veikjast af pólitískum ástæðum. Hugmyndafræðileg tíska hefur líka meinað mönnum að beita þeim björgum sem ríkin búa þó yfir. Ábyrgðarlaus skuldsetning ríkja á síðustu áratugum hefur að auki dregið stórlega úr getu þeirra til að bregðast við með aukinni fjárfestingu í menntakerfum, rannsóknum, stoðkerfum og atvinnusköpun. Ríkisstjórnir í vandaSvo kom kreppa og kröfur manna urðu meiri en ríkisstjórnir fá ráðið við. Þær hafa misst vald bæði til alþjóðlegra markaða og innlendra. Valdið hefur líka færst frá kjósendum til neytenda, sem er að vísu sami hópurinn en með ólíka sýn og hagsmuni þó. Menn hrópuðu fyrir skemmstu sem neytendur en nú hrópa þeir sem kjósendur. Kjósendur skiptast að auki meira en fyrr eftir ólíkum hagsmunum kynslóða, sem pólitíska kerfið ræður illa við. Þeir skuldsettu á miðjum aldri hafa allt aðra hagsmuni en þeir eldri sem vilja öruggan lífeyri og sem minnsta skatta. Mörg módelKapítalisminn er ekki á útleið. Af honum eru líka til hin ólíkustu afbrigði. Sum bera þess merki að hagsmunir einstakra atvinnugreina hafa ráðið miklu í stjórnmálum. Víða í Evrópu var reynslan af afskiptum ríkisins af atvinnulífi lengi mjög slæm og markaðslausnir sýndust því heillandi. Afreglun átti að leiða menn frá klíkuskap, pólitískri spillingu, óskilvirkni og sérhagsmunum. Hún leiddi inn í annað öngstræti. Þau módel af kapítalismanum sem nú eru við lýði, ein fjögur eða fimm í Evrópu og önnur fjögur eða fimm í Asíu, bjóða fram ólíka kosti. Innan þeirra takast á hagsmunir, trú og skynsemi. Trúin er víða að veikjast. SkynsemiMálið snýst öðru fremur um að finna módel þar sem sértækir hagsmunir ráða sem minnstu. Hverjir sem þeir eru. Og þar sem skynsemi fær að ráða oftar en kreddur. Ríki hafa stærra hlutverk við uppbyggingu atvinnulífs en að forða verðbólgu með tískukenningum hvers tíma í peningastjórn. Hagkerfið er undirstaða alls þjóðlífsins og ekki fyrir fikt eða fúsk. Skynsemi er stundum snjallari en markaðir og alltaf betri en kreddur.