Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Real Madrid, segir að það sé nánast útilokað að liðið verji Spánarmeistaratitil sinn. Real Madrid gerði jafntefli gegn botnliði Espanyol á heimavelli í gær 2-2.
„Það er í raun og veru útilokað," sagði Mourinho um möguleika liðsins á að ná Börsungum að stigum. Barcelona lagði Atletico Madrid 4-1 á heimavelli í gær. Liðið hefur níu stiga forskot á Atletico en þrettán stigum munar á Real og Börsungum.
„Bilið er of mikið. Á síðasat ári höfðum við tíu stiga forskot í febrúar eða mars og náðum að halda því. En takist okkur að bæta leik okkar í deildinni mun það koma sér vel í Meistaradeildinni," sagði Portúgalinn en Real er komið í sextán liða úrslit í Meistaradeild Evrópu.
Real beið lægri hlut gegn Celta Vigo í fyrri leik liðanna í spænska bikarnum í síðustu viku. Eftir jafnteflið í gær var Mourinho þungt hugsi.
„Ég hef aldrei upplifað aðstæður sem þessar. Tapa svo mörgum stigum og stýra liði sem er svo fjarri markmiðum sínum," sagði Portúgalinn.
