Karlalið ÍR í handbolta situr í 5. sæti efstu deildar en hlé hefur verið gert á deildarkeppninni vegna heimsmeistaramótsins í handbolta sem fram fer á Spáni í janúar.
ÍR hefur 11 stig líkt og Akureyri og Fram en lélegri árangur úr innbyrðisviðureignum. Af þeim sökum komst liðið ekki í undanúrslit deildarbikars HSÍ sem fram fara í lok janúar.
„Það eru gríðarlega mikil vonbrigði. Hefðum við unnið síðasta leikinn værum við einir í þriðja sæti. Í staðinn erum við í þessum pakka sem allir eru í. Venjulega er maður eitt kvöld eða einn og hálfan dag að jafna sig eftir svona tapleik," segir Jón Heiðar Gunnarsson línumaður ÍR-inga greinilega svekktur.
„Ég blóta hins vegar ennþá á hverjum morgni yfir að hafa ekki náð einu af fjórum efstu sætunum," segir Jón Heiðar sem reiknar með betri frammistöðu á vormánuðum þegar lykilmenn á borð við Ingimund Ingimundarson og Björgvin Hólmgeirsson hafa hrist af sér meiðsli.
„Ef menn haldast heilir og við gerum þetta vel hef ég fullatrú á að við getum toppað á réttum tíma. Haukarnir geta ekki toppað allt tímabilið," segir Jón Heiðar og hlær.
