Helmut Marko, sérlegur ráðgjafi Red Bull fyrirtækisins í kappakstursmálum, sagði við austurrískt dagblað að Red Bull hefði bent FIA á að kappakstursbraut Red Bull í Austurríki, Red Bull Ring, hefði öll tilskilin leyfi til að halda Formúla 1-kappakstur.
Red Bull Ring-brautin hefur áður verið notuð í Formúlu 1 undir ýmsum nöfnum og í ýmsum myndum. Síðast var keppt þar árið 2003 þegar brautin hét A1 Ring. Red Bull-orkudrykkjaframleiðandinn austurríski keypti brautina og hefur betrumbætt hana talsvert.
Það gæti hins vegar reynst flókið að koma Formúlu 1 í fjallahéruð Austurríkis á ný því svæðið annar alls ekki þeim áhorfendaskara sem flykkist á hvert einasta mót. Bæði eru ekki næg hótelrými fyrir allan þennan fjölda og Red Bull hefur gert samning við héraðstjórnina í Styríu um að halda ekki íþróttamót þar sem fleiri en 40.000 áhorfendur mæta.
Marko, sem rekur hótel í Graz; stærstu borg héraðsins, segist ekki hafa áhyggjur af þessu enda væri þetta auðleysanlegt vandamál. Hann var einnig spurður um hvernig mótið yrði fjármagnað og svaraði því til að hérðasstjórnin í Styríu og ríkisstjórnin í Austurríki myndu veita nægilegt fjármagn til að halda mótið.
"Bíðum bara og sjáum," var svar Marko þegar hann var spurður hvort það væri réttlætanlegt að evrópsk stjórnvöld styddu kappakstursmót í miðri efnahagskreppu.
Ef mótshaldarar sýna fram á að mótið geti farið fram er það undir Bernie Ecclestone að ákveða hvort það fari á dagskrá Formúlu 1. Ecclestone og Dietrich Mateschitz, stofnandi Red Bull-fyrirtækisins, eru góðir vinir. Mateschitz er samkvæmt heimildum BBC í fríi á Fiji-eyjum í Kyrrahafinu fram undir jól.
Enn er óvist um hvort ríkisstjórn Tyrklands vilji styrkja kappakstur þar á næsta ári en hreift var við dagskránni fyrr í þessum mánuði til að koma tuttugu mótum á dagatalið í stað nítján. Tuttugasta mótið á að fara fram í Evrópu þann 21. júlí 2013.
