Búist er við rigningu í Sao Paulo í dag, í það minnsta skúrum. Það mun hjálpa Fernando Alonso meira en Sebastian Vettel í kappakstrinum. En það er mikilvægt að muna að í regnkeppnum getur áhætta í keppnisáætlun bæði unnið fyrir þig kappakstur og eyðilagt hann.
Báðir eru tvöfaldir heimsmeistarar í Formúlu 1 og eru því að keppa um hver fær sinn þriðja titil. Fyrir fram er Vettel líklegri þar sem hann hefur þrettán stiga forskot á Alonso og Vettel ræsir í fjórða sæti en Alonso í sjöunda. Það er hins vegar ekki öll nótt úti enn fyrir Alonso.

Sérfræðingarnir óttast að rafallinn gæti klikkað í kappakstrinum í dag. Red Bull-liðið gefur auðvitað ekkert upp um það hvaða týpu þeir hafa sett í bílinn fyrir þennan kappakstur.
Bæði Vettel og Alonso virðast svolítið stressaðir fyrir kappaksturinn í dag, samkvæmt heimildum Sky Sports F1. Þegar allt kemur til alls skiptir röð ökumanna yfir endamarkið mestu máli því fyrir það fá menn stig. Svona þarf að fara fyrir kappakstrinum ef Vettel eða Alonso ætla að vinna titilinn.
Vettel vinnur heimsmeistaratitilinn ef...
... hann endar í efstu fjórum sætunum.
... hann klárar fimmti, sjötti eða sjöundi og Alonso vinnur ekki kappaksturinn.
... hann klárar í áttunda eða níunda og Alonso verður þriðji eða neðar.
... hann klárar tíundi eða neðar og Alonso nær ekki verðlaunasæti.
Alonso vinnur heimsmeistaratitilinn ef...
... hann vinnur og Vettel er fimmti eða neðar.
... hann klárar annar og Vettel er í áttunda eða neðar.
... hann er þriðji og Vettel er tíundi eða neðar.
