Talið er að tíunda sætið í stigabaráttu bílasmiða sé um það bil tvo milljarða íslenskra króna virði. Það var því mikið í húfi fyrir Caterham og Marussia.
Þó um sé að ræða sæti í stigabaráttunni þá náðu þessi tvö lið engum stigum í ár. Það gerði HRT-liðið ekki heldur og talið er að þeir lýsi sig gjaldþrota á næstu vikum og keppi ekki á næsta ári. Samt sem áður er raðað í neðstu sætin eftir árangri á brautinni. Séu liðin ekki með nein stig telur besta sætið sem liðin hafa náð.
Vitaly Petrov kláraði brasilíska kappaksturinn í 11. sæti á undan Charles Pic. Petrov tók fram úr Pic þegar sjö hringir voru eftir svo það mátti ekki á tæpara standa. Marussia náði tíunda sætinu í Singapúr þegar Timo Glock kláraði í tólfta sæti.
„Þetta er búið að vera erfitt ár," sagði Abiteboul enn fremur. „Við höfum ekki staðið okkur eins vel og við héldum að við gætum en árangurinn í dag gefur tilefni til fögnuðar."
„Þegar staðan er veginn þá held ég að við höfum verðskuldað þetta tíunda sæti. Við höfum yfirleitt náð betri úrslitum en Marussia og þegar tækifærið gafst kláruðum við dæmið."
Pic til Caterham en Kovalainen á útleið

Charles Pic hóf feril sinn í Formúlu 1 í ár með Marussia. Pic hefur staðið sig mjög vel og hefur í nokkur skipti skákað liðsfélaga sínum Timo Glock. Pic er aðeins 22 ára gamall og á því framtíðina fyrir sér í Formúlu 1.
Heikki Kovalainen á því ekki lengur víst sæti í keppnisbíl í Formúlu 1 á næsta ári. Finninn er í nokkuð snúinni stöðu því öll stærstu liðin hafa ráðið í sín sæti.
Kovalainen hóf Formúlu 1-feril sinn með Renault árið 2007 og komst í eitt skipti á verðlaunapall. Árin 2008 og 2009 ók hann fyrir McLaren við hlið Lewis Hamilton og vann sinn fyrsta og eina sigur í Formúlu 1.
Þaðan fór hann til Lotus-liðsins, sem heitir núna Caterham, með það í huga að byggja upp framtíðar Formúlu 1-lið. Nú þegar árangurinn virðist handan við hornið fær hann ekki samninginn endurnýjaðan. Vonbrigðin eru því mikil fyrir Kovalainen.
