Jordan Henderson, leikmaður Liverpool, ætlar að gera sitt besta í kvöld til að sýna stjóranum Brendan Rodgers að hann eigi heima í byrjunarliði félagsins.
Henderson verður líklega í byrjunarliði Liverpool sem mætir rússneska liðinu Anzhi Makhachkala í Evrópudeild UEFA í kvöld. Hann kom inn á sem varamaður þegar að Liverpool vann Anzhi á heimavelli fyrir tveimur vikum síðan.
„Ég held að þetta verði erfiður leikur," sagði Henderson í viðtali á heimasíðu Liverpool. „Við unnum Anzhi á heimavelli en þetta er gott lið. Við höfum þó getuna til að fara til þeirra og ná í góð úrslit."
„Vonandi fæ ég tækifæri til að spila. Ég verð að nýta öll þau tækifæri sem ég fæ."
„Stjórinn hefur sagt mér að vera duglegur, leggja mikið á mig, berjast fyrir byrjunarliðssæti á æfingum og nýta tækifærin þegar ég fæ þau. Vonandi tekst mér það í kvöld."
