Tæknirisinn Apple mun kynna minni útgáfu af iPad-spjaldtölvunni í Kaliforníu í dag. Grunur leikur á að Apple muni einnig opinbera minni útgáfu af MacBook Pro fartölvunni sem verður með mun hærri upplausn en forverar sínir.
Þrálátur orðrómur hefur verið á kreiki um að minni útgáfu af iPad-spjaldtölvunni sé væntanleg. Þetta er þvert á það sem Steve Jobs, fyrrverandi framkvæmdastjóri Apple, sagði á sínum tíma.
Fyrir tveimur árum sagði Jobs að minni útgáfa af iPad-spjaldtölvunni væri algjörlega tilgangslaust raftæki og að ólíklegt væri að neytendur myndu fagna slíkri vöru.
