Schalke sótti þrjú stig á Emirates Stadium í London í kvöld með því að vinna 2-0 sigur á Arsenal og komst fyrir vikið í toppsæti B-riðilsins.
Hollendingarnir Klaas-Jan Huntelaar og Ibrahim Afellay skoruðu mörkin í leiknum. Arsenal var búið að vinna tvo fyrstu leiki sína í riðlinum en er nú stigi á eftir þýska liðinu þegar riðlakeppnin er hálfnuð.
Fyrri hálfleikurinn var jafn en það voru samt Schalke-menn sem fengu bestu færin og það besta átti Hollendingurinn Klaas-Jan Huntelaar í lok hálfleiksins.
Schalke komst yfir á 76. mínútu og verður það að teljast sanngjarnt. Schalke-menn unnu tvö skallaeinvígi í röð fyrir framan vítateig Arsenal og kom boltanum á endanum inn á Klaas-Jan Huntelaar sem skoraði örugglega.
Ibrahim Afellay innsiglaði síðan sigurinn á 86. mínútu með skoti af stuttu færim eftir sendingu frá Jefferson Farfán.
Arsenal átti afleitan leik í kvöld og tapaði þarna sínum fyrsta heimaleik á móti erlendu liði síðan 2003 þegar liðið lá á móti ítalska liðinu Inter.
Hollendingarnir afgreiddu Arsenal á Emirates
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
