Stórleikur kvöldsins í Meistaradeild Evrópu í fótbolta er viðureign Spánarmeistaraliðs Real Madrid og Englandsmeistaraliðs Manchester City. Það tók Jose Mourinho tvö ár að landa titlinum með Real Madrid og Roberto Mancini þurfti 2 ½ ár til þess að vinna ensku úrvalsdeildina með Man City. Bæði félögin hafa eytt gríðarlegu fjármagni í leikmannakaup og er talið að dýrustu knattspyrnulið allra tíma muni mætast á Santiago Bernabéu í Madríd í kvöld.
Ítalinn Roberto Mancini hefur keypt 22 leikmenn frá því hann kom til starfa hjá Man City og samtals hefur hann eytt um 58 milljörðum kr. í leikmannakaup. Mourinho hefur á sama tíma keypt 12 leikmenn fyrir um 30 milljarða kr. samkvæmt samantekt spænska íþróttablaðsins Marca.
Áður en Mancini og Mourinho komu til starfa hjá sínum liðum var leikmannahópurinn vel mannaður hjá báðum liðum. Samkvæmt útreikningum Marca gætu liðin stillt upp byrjunarliðum, alls 22 leikmönnum, sem væru metin á um 160 milljarða kr.
