Fótbolti

Fótboltamaður á Ítalíu í hungurverkfalli - liðsfélagi Emils hjá Verona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emanuele Pesoli.
Emanuele Pesoli. Mynd/Nordic Photos/Getty
Emanuele Pesoli er búinn að hlekkja sig við hliðið á höfuðstöðvum ítalska knattspyrnusambandsins í Róm og er jafnframt farinn í hungurverkfall til að mótmæla því að hann var dæmdur í þriggja ára keppnisbann fyrir hlut sinn í hagræðingu úrslita í ítalska boltanum.

Emanuele Pesoli er fyrrum leikmaður Siena en hann er nýorðinn liðsfélagi Emils Hallfreðssonar hjá Hellas Verona. Pesoli var einn af mörgum leikmönnum, þjálfurum og eigendum sem ítalska knattspyrnusambandið dæmdi seka í gær í þessu stóra hneykslismáli. Einn af þeim var Antonio Conte, þjálfari Ítalíumeistara Juventus, sem var dæmdur í tíu mánaða bann.

Emanuele Pesoli er 31 árs varnarmaður og fótboltaferill hans er nánast búinn eftir þennan þunga dóm. „Ég er mjög sár yfir þessum dómi og vill hitta þessa menn sem dæmdu mig," sagði Pesoli við Gazzetta dello Sport en Pesoli sem telur að vitni í málinu hafi logið upp á hann sakir.

„Þetta eru dramatísk mótmæli en þeir eru að eyðileggja líf mitt vegna einhvers sem ég gerði ekki. Ég ætla að vera hér þar til að ég get ekki meira," sagði Pesoli.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×