Japönsk stjórnvöld hafa útvíkkað rannsókn sína á innherjaviðskiptum í fjármálageira landsins og er fullyrt í New York Times í dag, að rannsóknin teygi anga sína inn á miðlaragólf stærstu bankanna á Wall Street í New York, þar á meðal Goldman Sachs, svissneska bankans UBS og þýska bankans Deutsche Bank.
Þingnefnd á vegum japanska þingsins, undir forystu Tsutomu Okubo, hefur óskað eftir upplýsingum frá eftirlitsstofnunum á fjármálamarkaði og innan banka um öll hlutabréfaviðskipti skömmu fyrir síðustu 12 opinberar skráningar á hlutabréfamarkaði. Grunur leikur á því að bankar hafi aðstoðað fjölda viðskipta að græða á grundvelli innherjaupplýsinga. Meðal þess sem er til sérstakrar athugunar hjá yfirvöldum í Japan eru viðskiptavinir Goldman Sachs sem veðjuðu á hlutabréf All Nippon Airways myndu falla í verði við skráningu á markað í síðasta mánuði. Það gekk síðan eftir.
Ein af ástæðum þess að rannsóknin hefur verið útvíkkuð er sú að innherjaviðskipti hafa nýlega uppgvötast hjá stærsta fjárfestingabanka Japans, Nomura. En Fjármálaeftirlitið í Japan hefur þegar þrýst á um að tveir af yfirmönnum bankans segi af sér vegna málsins, en opinber sakamálarannsókn yfirvalda á umfangi viðskiptanna er stutt á vegum.
Sjá má umfjöllun New York Times um rannsókn á innherjaviðskiptum í Japan hér.
