Rokkhátíðin Eistnaflug gekk að mestu leyti vel að sögn Stefáns Magnússonar sem skipulagði hátíðina. Hann kemur í bæinn í skýjunum að eigin sögn.
Því er hins vegar ekki að neita að nokkur erill var hjá lögreglunni á svæðinu. Í 1.500 manna hópi voru nokkrir svartir sauðir og samkvæmt upplýsingum frá lögreglu komu alls upp 30 fíkniefnamál. Í flestum tilvikum var um smáskammta af kannabis að ræða, en leitarhundurinn Þoka átti stjörnuleik á svæðinu um helgina.
Þá var einnig nokkuð um pústra og slagsmál.
Stefán segir að heilt á litið hafi hátíðin verið mjög ánægjuleg þó einhver leiðindamál hafi komið upp. Varðstjóri lögreglu staðfestir það í samtali við mbl.is. Hann segir að aldrei fyrr hafi hann séð jafnmarga samankomna á tjaldsvæðinu og þeir hafi að mestu verið alveg til friðs.

