GR-ingarnir Gísli Þór Þórðarson og Arnór Ingi Finnbjörnsson og GA-ingurinn Örvar Samúelsson spiluðu best á fyrsta hringnum á Egils Gull mótinu í Eyjum en þetta er annað mótið á Eimskipsmótaröðinni í ár.
Gísli, Arnór og Örvar léku allir fyrstu 18 holurnar á 70 höggum eða á pari vallarins. Keppni tafðist í morgun vegna veðurs en kylfingarnir eru strax farnir út að spila annan hring því menn ætla að klára 36 holur í dag.
Það gekk mikið á hjá Gísla og Örvari. Örvar fékk bæði fjóra fulga og fjóra skolla en Gísli var með fjóra fugla, tvo skolla og einn skramba á sjöundu holunni. Arnór Ingi var með tvo fugla og tvo skolla.
Axel Bóasson úr GK byrjaði mjög vel og var á tveimur höggum undir pari eftir fyrstu sex holurnar. Hann fékk síðan fjóra skolla á seinni níu.
Staðan eftir fyrsta hring í karlaflokki:
1. Örvar Samúelsson, GA Par
1. Arnór Ingi Finnbjörnsson, GR Par
1. Gísli Þór Þórðarson, GR Par
4. Ólafur Már Sigurðsson, GR +1
4. Arnar Snær Hákonarson, GR +1
6. Andri Þór Björnsson, GR +2
6. Magnús Lárusson, GKJ +2
6. Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GR +2
6. Þórður Rafn Gissurarson, GR +2
6. Axel Bóasson, GK +2
