Bastian Schweinsteiger tryggði Bayern München sæti í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu með því að skora úr fimmtu spyrnu liðsins í vítaspyrnukeppninni gegn Real Madrid í kvöld.
Eftir æsispennandi viðureign í Madríd í kvöld þurfti vítaspyrnukeppni til að knýja fram úrslit og þar reyndust þeir þýsku sterkari.
„Við erum reyndar allir algjörlega búnir á því en erum afar ánægðir," sagði hann við þýska fjölmiðla eftir leikinn. „Það eina sem ég hugsaði um í vítaspyrnukeppninni var að koma boltanum í markið."
Úrslitaleikurinn fer fram á Allianz-Arena, heimavelli Bayern, og ríkir því sérstaklega mikil ánægja í herbúðum liðsins með árangurinn í kvöld. „Við eigum einn leik eftir á heimavelli og hann viljum við vinna."
Manuel Neuer, sem varði frá þeim Cristiano Ronaldo og Kaka í vítaspyrnukeppninni, var einnig ánægður. „Við höfðum mikið fyrir þessu. Í báðum þessum leikjum vorum við síst lakari aðilinn og á endanum áttum við skilið að komast áfram."
„Ég vildi auðvitað verja eins margar vítaspyrnur og ég gat en auðvitað hefur heppni eitthvað að segja í þeim efnum," bætti hann við.
Schweinsteiger: Við erum búnir á því
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
