Fannar Helgason var allt annað en sáttur eftir leik Stjörnunnar og Grindavíkur í kvöld. Grindavík vann leikinn eftir spennandi lokamínútur þar sem gekk á ýmsu. Dómarar leiksins slepptu til að mynda að dæma brot á Grindvíkinga rétt áður en Sigurður Þorsteinsson skoraði sigurkörfu leiksins.
Fannar náði varnarfrákasti í stöðunni 77-77 en Grindvíkingar náðu boltanum af honum án þess að nokkuð væri dæmt. „Það var brotið á mér. Þeir biðu eftir að ég gæfi einhverjum olnbogaskot og ég þorði auðvitað ekki að snerta neinn svo ég færi ekki í leikbann. Það er skandall að það hafi ekki verið dæmt og mér finnst eins og við höfum verið rændir," sagði Fannar sem missti af síðustu tveimur leikjum liðanna vegna leikbanns.
„Við erum í baráttu um boltann en þetta er samt villa. Ég held bara boltanum og það er ekkert sem ég get gert," sagði Fannar hundfúll vægast sagt.
Um lokasókn Stjörnunnar þegar Justin Shouse keyrði inn að körfunni en náði ekki almennilega skoti sagði Fannar:
„Það er klárlega villa líka. Það eru tvö risastór atvik sem réðu úrslitum. Við áttum auðvitað að vera búnir að ná þeim fyrr en við gerðum það samt. Við sýndum karakter og komum tilbaka. Þetta var bara í höndum dómaranna, ég get ekki sagt annað. Mig langar að segja að þeir skipti ekki máli í körfubolta en þeir gerðu það klárlega."
Körfubolti