Írinn Pardraig Harrington og Bandaríkjamaðurinn Jonathan Byrd hrósuðu sigri á árlegri Par 3 keppni sem fram fer daginn fyrir Masters-mótið í golfi. Hætta þurfti keppni vegna þrumuveðurs þegar nokkrir keppendur áttu enn eftir að skila sér í mark.
Þetta er í þriðja sinn sem Harringon hrósar sigri í keppninni en hann spilaði á fimm undir pari líkt og Byrd. Nokkrir kylfingar kusu að taka ekki þátt og voru Tiger Woods og Rory McIlroy þeirra á meðal.
Daninn Thomas Björn og Bandaríkjamaðurinn Mark Wilson áttu högg dagsins á par 3 vellinum í Augusta. Kapparnir fóru báðir holu í höggi.
Léttleikinn er í fyrirrúmi í keppninni þar sem flestir kylfingarnir njóta þess að spila holurnar níu í faðmi fjölskyldumeðlima sem oft gegna hlutverki kylfusveina.
Masters-mótið hefst í kvöld klukkan 19 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 3. Að lokinni viðureign Stjörnunnar og Keflavíkur í úrslitakeppni karla í körfuknattleik verður mótið einnig í beinni á Stöð 2 Sport.
