Sigríður Friðjónsdóttir, saksóknari Alþingis, hafnar þeim skýringum að forsætisráðherra hafi ekki getað gert neitt til þess að beita sér fyrir því að bankarnir færu úr landi eða myndu minnka efnahagsreikning sinn á árinu 2008.
Máli sínu til stuðnings benti Sigríður á að Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Glitnis, og Lárus Welding, forstjóri bankans, hefðu borið vitni um það í dómnum að bankinn hefði ráðist í niðurskurðaraðgerðir og selt eignir.
Fullyrt hefur verið í dómnum að ekki hafi verið hægt að þrýsta á bankana til þess að selja eignir vegna þess að undir slíkum þrýstingi hefuð bankarnir ekki getað fengið nægjanlegt verð fyrir eignir sínar. Það hefði komið illa niður á efnhagsreikningi bankanna ef þeir hefðu þurft að selja eignir sínar á brunaútsölu.
Sigríður hafnaði þessu og segir að eignir hafi verið seldar í aðdraganda bankahrunsins. Benti hún á eignir Glitnis til dæmis. Þá hafi skilanefndir bankanna einnig selt eignir eftir bankahrunið. Loks hafi Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings, og Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri bankans, borið fyrir dómi að hægt hafi verið að selja eigur bankans. Þar væri meðal annars um að ræða Singer&Friedlander í Bretlandi.
Aftur á móti væri ekki að sjá að Landsbankinn hafi gert tilraun til þess að selja Heritable bankann í Bretland. Það hafi þó verið seljanleg eign.
