Lionel Messi og félagar í Barcelona sýndu enga miskunn í kvöld þegar þeir slógu þýska liðið Bayer Leverkusen út úr sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Barcelona vann leikinn 7-1 og þar með samanlagt 10-2. Messi skoraði fimm af sjö mörkum Barcelona.
Bayer Leverkusen tapaði fyrri leiknum 3-1 og átti því ekki mikla möguleika á Nývangi en Lionel Messi sá líka til þess strax í fyrri hálfleik að þær litlu vonir sem Þjóðverjarnir höfðu voru kæfðar strax.
Lionel Messi skoraði tvö mörk í fyrri hálfleiknum, það fyrra á 25. mínútu með laglegri viippu eftir glæsilega stungusendingu frá Xavi og það síðara á 42. mínútu eftir sendingu frá Andrés Iniesta.
Lionel Messi var ekki hættur því hann innsiglaði þrennuna á 49. mínútu eftir sendingu Cesc Fabregas. Cristian Tello kom inn á sem varamaður á 53. mínútu og skoraði fjórða markið tveimur mínútum síðar eftir sendingu Fabregas.
Messi skoraði síðan fjórða mark sitt á 58. mínútu og fjórum mínútum síðar kom umræddur Cristian Tello Barca í 6-0 og niðurlægingin var algjör.
Lionel Messi átti síðan lokaorðið þegar hann skoraði fimmta markið sitt á 85. mínútu eftir þríhyrningaspil við Seydou Keita. Karim Bellarabi náði að minnka muninn í lokin.

