Valsmenn héldu lífi í voninni um sæti í úrslitakeppni N1 deildar karla með 28-27 sigri á FH í 17. umferð N1 deildar karla í kvöld. Valsmenn hafa þar með náð í þrjú stig af fjórum mögulegum í síðustu tveimur leikjum sínum á móti toppliðum deildarinnar. Valsliðið tók stig af Haukum í umferðinni á undan en það jafntefli kostaði Haukana toppsætið.
Valsmenn hafa nú 18 stig þegar fjórar umferðir eru eftir. Þeir eru samt enn í 6. sæti deildarinnar þrátt fyrir sigurinn. Valsliðið er nú einu stigi á eftir Fram sem er í 5. sæti og þremur stigum á eftir HK sem er í 4. og síðasta sætinu sem gefur sæti í úrslitakeppninni.
Stefán Karlsson, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var á leiknum í Vodafone-höllinni í kvöld og náði þessum skemmtilegu myndum. Myndirnar má sjá í albúminu hér að neðan. Hægt er að sjá myndirnar stærri með því að smella á þær.
