AC Milan er komið með annan fótinn í átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í fótbolta eftir 4-0 stórsigur á Arsenal í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitunum sem fram fór á San Siro í Mílanóborg í kvöld. Arsenal-liðið var nokkrum númerum of lítið í þessum leik og getur nú farið að einbeita sér að keppni í ensku úrvalsdeildinni og enska bikarnum.
Brasilíumaðurinn Robinho skoraði tvö marka AC Milan en þau komu bæði eftir stoðsendingar Svíans Zlatan Ibrahimovic sem síðan innsiglaði sigurinn úr vítaspyrnu í lokin. Zlatan fiskaði vítið sjálfur. Fyrsta mark leiksins og það fallegasta skoraði hinsvegar Kevin Prince-Boateng.
Þetta er stærsta tap Arsenal á útivelli í sögu liðsins í Meistaradeildinni en það má segja að öll vandamál liðsins í vetur hafi kristallast í þessum leik.
Kevin Prince-Boateng kom AC Milan í 1-0 með frábæru marki á 15. mínútu eftir að hafa fengið sendingu inn í teiginn frá Antonio Nocerino. Boateng tók boltann á kassann og afgreiddi hann í slánna og inn. Nocerino var síðan nálægt því að skora sjálfur sjö mínútum síðar.
Robinho bætti síðan við öðru mark á 38. mínútu með skalla rétt utan markteigs eftir frábæran undirbúning Zlatan Ibrahimovic. Zlatan fann Robinho aftur eftir aðeins fjórar mínútur í seinni hálfleik og Brasilíumaðurinn kom AC Milan í 3-0 með skoti rétt fyrir utan vítateig.
Thierry Henry kom inn á í hálfleik en það breytti engu fyrir Arsenal-liðið og þriðja markið var algjört kjaftshögg.
Zlatan Ibrahimovic innsiglaði síðan sigurinn ellefu mínútum fyrir leikslok með marki úr vítaspyrnu sem var dæmd þegar Johan Djourou braut á Zlatan í teignum.

